SÞ hefur komið hálfri milljón til hjálpar innan Úkraínu

0
587

Hjálparstarfsfólki hefur verið fjölgað til muna í Úkraínu til að koma sívaxandi fjölda landsmanna til hjálpar sem leita skjóls fyrir stórskotaliðsárásum Rússa. Auk þeirra 2.5 milljóna Úkraínumanna sem flúið hafa land til nágrannaríkja, hafa 2 milljónir manna flúið heimili sín og er á flótta innan landamæra ríkisins, að sögn UNHCR, Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

„Þrennt er mikilvægast til skamms tíma litið: það ber að virða og vernda óbreytta borgara hvar sem þeir eru, heimafyrir eða á flótta. Það verður að leyfa óhindraðan flutning hjálpargagna. Jafnframt verður að tryggja stöðug samskipti við stríðandi fylkingar,“ segir Stéphane Dujarric talsmaður Sameinuðu þjóðanna.

Stéphane Dujarric talsmaður Sameinuðu þjóðanna á blaðamannafundi í New York í gær (10.mars).

„Hjálparsamtök hafa fjölgað starfsliði sínu í landininu og vinna við að koma hjálpargögnum til vöruhúsa um allt landið og utan þess.“

Sameinuðu þjóðirnar og samstarfsaðilar þeirra hafa komið hálfri milljón manna til aðstoðar innan landamæra Úkraínu með matvælum, skjóli, ábreiðum og hjúkrunargögnum.

Dujarric segir að ef aukinn aðgangur verði tryggður af hálfu rússneska innrásarliðsins „þá mun þessi tala hækka verulega.“

Fjölskyldur geta vart brauðfætt sig

Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna  (WFP) hefur  þungar áhyggjur af áhrifum átakanna á fæðuöryggi Úkraínu. „Fjölskyldur á átakasvæðum hafa sífellt minni möguleika á að brauðfæða sig.“

Áætlanir WFP fela í sér að koma 3.1 milljón manna í borgum í Úkraínu til hjálpar með matarsendingum, brauði og mataskömmtum.

„ WFP er í kapphlaupi við tímann og reynir að koma matvælum fyrir á svæðum þar sem búist er við að átök blossi upp,” segir Dujarric.

Uppskera í hættu

Matvæla og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur varað við því að næstu vikur skipti sköpum um framhaldið því bændur þurfi tíma til að undirbúa land fyrir akuryrkju. Úkraína er einn stærsti kornvöru-útflytjandi heims.

Í venjulegu árferði væru úkraínskir bændur að undirbúa ræktun hveitis, byggs, maís og sólblóma frá febrúar til mars. FAO leggur áherslu á að vernda beri uppskeru og búfénað á meðan átök standa yfir.

Milljón barna landflótta

Fæðingadeild í Kyiv höfuðborg Úkraínu hefur verið flutt niður í kjallara í öryggisskyni. © UNICEF/Oleksandr Ratushniak

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) segir að nú hafi ein milljón barna orðið landflótta frá Úkraínu. Sjötíu vöruflutningabifreiðar frá UNICEF með nærri sjötíu tonn af hjálpargögnum komist leiðar sinnar.

Hjálpargögn UNICEF og samstarfsaðila þeirra hafa sent 22 sjúkrahúsum á fimm átakavæðum hjúkrunargögn sem koma 20 þúsund börnum og mæðrum til góða.

Hingað til hefur einungis tekist að fjármagna rétt tæp 10% af þeirri fjárhæð sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fór fram á við ríki heims til hjálpar Úkraínu.

Í ákalli vegna Úkraínu var farið fram á 1.1. milljarð Bandaríkjadala til hjálparstarfs en tekist hefur að afla 109 milljóna dala.

Til að fá upplýsingar um hvernig láta má fé af hendi rakna til stuðnings bágstöddum Úkraínumönnum má smella hér.