SÞ hvetja til að Afganir fá aðgang að sínu eigin fé

0
539

Sérfræðingar SÞ hvetja Bandaríkin til að losa um eignir Afganistans erlendis. Seðlabanki Afganistans á eignir að andvirði 7 milljarða Bandaríkjadala sem Bandaríkin hafa „fryst” eða lagt hald á. Þetta fé mætti nota til að lina þjáningar tuga milljóna Afgana, að sögn mannréttindasérfræðinga Sameinuðu þjóðanna. 

Börn og móðir í Afganistan
Börn og móðir í Afganistan

Biden Bandaríkjaforseti gaf út tilskipun í febrúar síðastliðnum þess efnis að halda áfram að leggja hald á þetta fé. Að auki skipaði hann svo fyrir að nota mætti féð í þágu fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar á Bandaríkin í stað þess að láta það renna til mannúðarþarfa í Afghanistan.

Fjármagnið er að mestu aðstoð frá erlendum ríkjum til Afganistans í stjórnartíð þeirrar stjórnar sem Talibanar steyptu af stóli á síðasta ári.

Mannréttindasérfræðingarnir hafa hvatt yfirvöld í Washington til að endurskoða þessa ákvörðun. Þeir benda á að undanþágur í mannúðarskyni frá refsiaðgerðum sem samþykktar voru í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í desember síðastliðnum, hafi ekki skilað sér til afganskra borgara. Ástæðan er meðal annars sú að erlendir bankar bera fyrir sig ótta við að brjóta í bága við aðgerðirnar.

 Hrikalegt ástand

Matvælaastoð í Afganistan
Mynd: WFP

Sérfræðingarnir hafa þungar áhyggjur af ástandinu í landinu, en þeir segja að með aðgerðunum sé „lífi meir en helmingi íbúanna stofnað í verulega hættu.”

„Kynbundið ofbeldi hefur lengi þrifist en aðgerðir Bandaríkjastjórnar hafa ýtt undir þá hættu sem steðjar að konum og stúlkum. Þessu til viðbótar herjar þurrkur á landið og kynbundin mismunun de facto yfirvalda,” segja sérfræðingarnir og eiga þar við Talibana.

Sérfræðingarnir hvöttu einstök ríki til að endurskoða allar einhliða ákvarðanir og ryðja úr vegi hindrunum fyrir því að fjárhagsleg aðstoð og mannúðaraðstoð komist til skila.

Í janúar síðastliðnum fóru Sameinuðu þjóðirnar fram á hæstu upphæð sem um getur til að fjármagna hjálparstarf í einu landi eð 5 milljarða dala í þágu Afgana.

Talið er að 23 milljónir Afgana þurfi á brýnni matvælaastoð að halda en raunar er talið að 95% íbúanna, 40 milljóna, fái ónóga fæðu.

Nöfn og stöðu sérfræðinganna má finna hér.