Svíþjóð: Niðurskurður á þróunarfé gagnrýndur

0
437
Þróunaraðstoð Svía
Þróunaraðstoð Svía. Mynd: Sida.

Sænska stjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að ætla að fjármagna mótttöku úkraínskra flóttamanna með mótsvarandi niðurskurði á þróunarfé.

Vor-aukafjárlög voru tilkynnt í Svíþjóð í gær og þar er gert ráð fyrir tíu milljarða sænskra króna niðurskurði á framlögum til þróunarsamvinnu. Þetta er andvirði um 11 milljarða íslenskra króna.

Félag Sameinuðu þjóðanna í Svíþjóð gagnrýnir þessa ákvörðun.

“Það er mjög alvarlegt að fátækasta fólk heims sé látið gjalda fyrir stríð Pútins í Úkraínu,” segir formaður félagsins Annelie Börjesson.

“Kostnaður við móttöku úkraínskra flóttamanna mun að sjálfsögðu hafa áhrif á fjárlög en það á ekki að vera á kostnað fátækasta fólks heims.”

Svíar hafa verið á meðal rausnarlegustu ríkja hvað þróunaraðstoð varðar í meir en hálfa öld. Að mati sænska félags Sameinuðu þjóðanna hefur þetta ekki aðeins dregið úr fátækt og þjáningum í heiminum, heldur einni bætt ímynd Svíþjóðar.

Fullyrt er að niðurskurðurinn skapi óvissu um hvort hægt verði að framfylgja gerðum samningum Svíþjóðar, sænskra samtaka og samstarfsaðilja þeirra víða um heim.

“Við munum halda áfram samtali okkar við ríkisstjórn og stjórnaraðsöðu til að freista þess að draga úr áhrifum þessa á þróunarframlög,” segir Börjesson.