Sýrlendingur réttir Seyðfirðingum hjálparhönd

0
1029
Seyðisfjörður og Sýrland
Khattab og þrjú barnanna.

Þegar sýrlenski flóttamaðurinn Khattab al Mohammad heyrði að nærri 700 Seyðfirðingar hefðu orðið að flýja heimili sín vegna náttúrhamfara voru fyrstu viðbrögð hans að bjóða þeim hjálp og húsaskjól.

Sýrlendingur SeyðisfjörðurKhattab er enskukennari frá Aleppo í Sýrlandi. Hann hefur verið búsettur á Íslandi frá því 2016. Þá kom hann, kona hans, móðir og sex börn til landsins á vegum Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Börnin eru á aldrinum sex til tuttugu og tveggja ára. Þrjú yngstu búa hjá foreldrum sínum sem nú eru flutt til Reykjavíkur. Þrjú elstu eru við nám á Akureyri.  Khattab bauð Seyðfirðingum allt það, sem hann veit af reynslunni, að flóttamenn þurfa á að halda.

Íslendingar ekki séð Sýrland

Sýrland og Seyðisfjörður
Mynd: Veðurstofan.

„Ég er orðinn hluti af þessu samfélagi,“ sagði Khattab í viðtali við vefsíðu UNRIC. „Ég er bara að rétta fram hjálparhönd, rétt eins og Íslendingar hjálpuðu okkar. Ég hef aldrei komið til Seyðisfjarðar. En Íslendingar sem hjálpa Sýrlendingum hafa heldur aldrei komið til Sýrlands. Þetta er spurning um mannúð.“

Enginn hefur þurft að flýja átök á Íslandi síðustu átta til níu aldir eða frá því í borgarastríðinu sem kennt er við Sturlunga. Náttúruhamfarir eru hins vegar álíka algengar hjá okkur og átök í Mið-Austurlöndum. Ekkert manntjón varð

Í aurskriðunum á Seyðisfirði og víðar á Austurlandi, þótt tjón yrði á húsum. Nokkrir áttu þó fótum fjör að launa.

Seyðisfjörður SýrlandEins og mörgum er í fersku minni var ferjustaðurinn Seyðisfjörður notaður að hluta sem sviðsmynd Ófærðar. Það er til marks um hve staðurinn er þekktur af snjóþyngslum að trúverðugt þótti að þar lokaðist bærinn af völdum vetrarríkis svo vikum skipti í þáttunum.

Snjóflóð skeinuhættari

Aurskriður eru vissulega ekki óþekktar á Seyðisfirði og ollu manntjóni um miðja síðustu öld. Hins vegar hafa snjóflóð verið miklu meira áhyggjuefni á þessum slóðum ekki síst að vetri til. Á ekki ósvipuðum árstíma eða í janúar 1885 varð snjóflóð tuttugu og fjórum að bana eftir stanslausa þriggja vikna snjókomu á Seyðisfirði.

Að þessu sinni var engin hætta á snjóflóðum þvi enginn var snjórinn en regnvot gegnsósa hlíðin einfaldlega gaf sig og hrundi yfir byggðina.

Öfgakennt veður – loftslagsbreytingar?

En má kenna loftslagbreytingum um? Mögulega, en þó er ekki hægt að slá því föstu, að sögn Halldórs Björnssonar á Veðurstofu Íslands.

Eitt er þó víst og það er að veðurfar var með sérkennilegasta móti í aðdraganda aurskriðanna og hvert úrkomiðmetið á fætur öðru slegið.

Seyðisfjörður Sýrland
Stig Nygaard. CC BY 2.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=10676317

„Það var samfelld rigning í tíu daga. Fimm af þessum dögum hefðu hver um sig slegið met í meðalári og tvo þeirra var fádæma mikil úrkoma,” segir Halldór Björnsson veðurfræðingur í viðtali við UNRIC. „Við stöndum upp með samsetningu af því tagi sem við höfum ekki séð áður. Hvort þetta er afleiðing loftslagbreytinga, vitum við ekki. Hins vegar passar þetta inn í það sem höfum búist við að gerist, þótt það gerist öðruvísi en við reiknuðum með.”

Loftslagbreytingar snáust vitaskuld ekki bara um hlýnun jarðar. Síðast í október ítrekaði Alþjóða veðurfræðistofnuninn í ítarlegri skýrslu að öfgakennt veðurfar og óvenjuleg atvik í veðurfari hafi færst í vöxt og muni gera í framtíðinni.

Minningar frá Sýrlandi

Sýrland Seyðisfjörður
Flóttamannabúðir í norð-austur Sýrlandi

Flestir íbúanna hafa fengið að fara heim, en sumir geta ekki snúið heim af ótta við frekari aurskriður.

Auðvitað er ekki hægt að bera saman Seyðfirðinga sem ekki fá að vera heima um jólin, svo dapurlegt sem það er, við örlög landflótta Sýrlendinga. Engu að síður varð Khattab hugsað heim við fréttirnar af heimilislausum Seyðfirðingum.

Khattab segist vera á sextugsaldri og hann telji óvíst að honum auðnist að sjá heimaland sitt á ný.

„Jafnvel þótt átökin stöðvist nú þegar, mun taka áratug að byggja upp að nýju, bara til að allt verði eins og það var fyrir stríð. Vonandi munu börnin mína geta heimsótt heimaland okkar.“