Sýrlensk börn á flótta

0
535

syrland 1 frett stor

8. október 2012. Ástandið í Sýrlandi er mjög alvarlegt. Enn streymir fólk til nágrannaríkjanna og daglega flýja um 120 manns yfir Al-Qaim landamærin til Írak segir í frétt frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Síðan segir: Hins vegar er aðeins konum og börnum yngri en 15 ára hleypt yfir, sem sundrar fjölskyldunum. Um 500 manns komast til Domiz flóttamannabúðanna í Írak á degi hverjum. Flóttamannabúðirnar eru að fyllast. UNICEF vinnur að því hörðum höndum að undirbúa flóttamannabúðir fyrir veturinn, meðal annars með því að tryggja börnum hlý föt og teppi og grafa brunna til þess að búðirnar þurfi ekki að reiða sig jafn mikið á vatnsflutningabíla.

Samtökin leggja áherslu á barnavernd og úrræði til þess að börnin geti haldið skólagöngu sinni áfram. Sem dæmi um starf UNICEF í Sýrlandi þar sem af er árs má nefna að:

– 5800 fjölskyldur hafa fengið aðstoð og hjálpargögn eins og vatnsílát, sápu og teppi.
– Slík hjálpargögn hafa nú náð til yfir 33 þúsund Sýrlendinga sem eru á vergangi í heimalandinu, þar af 20 þúsund börn.
– UNICEF hefur þar að auki stutt við skólastarf og kennslu í 17 skólum þar sem meira en 4800 börn geta stundað nám, leikið sér örugg saman og fengið sálfélagslegan stuðning.
– 2450 pökkum sem innihalda skólagögn hefur verið dreift til barna í fjölskyldum á flótta.
– Heilsugæslufólk hefur hlotið sérstaka þjálfun til að hafa eftirlit með flóttabörnum, bera kennsl á þau börn sem þjást af vannæringu og veita þeim viðeigandi meðferð.

Viðbrögð UNICEF í nágrannaríkjum Sýrlands, þangað sem flestir flóttamennirnir streyma, hafa einna helst verið á sviði menntunar og sálfélagslegrar aðstoðar, auk þess að sjá til þess að börn og fjölskyldur þeirra hafi aðgang að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Bólusetningarherferð á vegum UNICEF er hafin á svæðinu. Börn hafa fengið tækifæri til þess að halda skólagöngu sinni áfram og fá aukna aðstoð við námið.

Rúmlega 86 þúsund Sýrlendingar eru nú skráðir flóttamenn í nágrannaríkjunum Jórdaníu, Írak, Tyrklandi og Líbanon. Helmingur þeirra er börn. UNHCR, Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, gerir ráð fyrir að fjöldi skráðra flóttamanna verði upp undir 185 þúsund í lok árs.  
Upplýsingar um hvernig hægt er að leggja neyðarsöfnun UNICEF lið til styrktar sýrlenskum börnum á flótta má finna á heimasíðunni www.unicef.is.

(Heimild www.unicef.is)