Tæknin spyr ekki að kyni

0
172
Alþjóðlegur dagur stúlkna í upplýsinga- og tölvutækni
Alþjóðlegur dagur stúlkna í upplýsinga- og tölvutækni © UNICEF/Dmitrii Galkevich

Jafnrétti. Tækni og vísindi. Stúlkur og konur nota netið og farsíma minna en strákar og karlar í heiminum, sérstaklega í þróunarríkjum. Ein helsta ástæðan er sú að þær skortir oft og tíðum kunnáttu til að nýta sér stafræna tækni. 27.apríl er Alþjóðlegur dagur stúlkna í upplýsinga- og tölvutækni. Þema dagsins er Stafræn tækni í þágu lífsins.

Alþjóðlegur dagur stúlkna í upplýsinga- og tölvutækni
Alþjóðlegur dagur stúlkna í upplýsinga- og tölvutækni Mynd:. © UN News Centre

 „Ef stúlkur og konur hasla sér ekki völl í þessum starfsgreinum, munu valdahlutföll í heiminum halda áfram að vera körlum í vil,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Í stafrænum og hnattrænum heimi, er hæfni í upplýsinga- og tölvutækni nauðsyn í flestum geirum. Árið 2015 var svo komið að talið var að kunnátta á þessum sviðum væri nauðsyn í 90% af störfum í framtíðinni.

Einna mestur vöxtur er í tæknigeiranum af öllum starfsgreinum á heimsvísu. Þar eru því gríðarlega mikil tækifæri fyrir konur sem búa yfir réttri kunnáttu. Því miður, hindra staðalmyndir, mismunun og kynjahlutverk, stúlkur frá unga aldri, frá því að skara fram úr á þessu sviði. Ef þær eru ekki hluti af stafrænu byltinginnu er, hins vegar, hætt við því að þær verði eftirbátar karla.

Konum ber að vera hluti af tæknibyltingunni

Þekking á tölvum og upplýsingatækni skiptir máli í jafnréttisbaráttu. Mynd: © UN News Centre

 Snar þáttur í að tryggja jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna er því að sjá til að þær öðlist tæknikunnáttu. Stafræna kynja-bilið hefur alvarlegar afleiðingar fyrir réttindi stúlkna og kvenna. Til að brúa þetta bil verður að greiða fyrir jöfnum aðgangi að stafrænni tækni og netinu. Einnig ber að hvetja stúlkur og konur og fjárfesta í þróun tæknikunnáttu þeirra. Auk þess þarf að sjá til að konur geti tekist á hendur forystuhlutverk í tækni.

Tvö góð dæmi

Jakomba Jabbie. Mynd: © UN Women/Ryan Brown

 Konur brjóta víða niður hindranir og ná frama í stafrænum heimi. Jakomba Jabbie er baráttukona fyrir menntun allra stúlkna í Gambíu, sérstaklega í vísindum og tækni. Hana langar til að starfa við vélfærafræði og verða verkfræðingur í fluggeiranum.

„Ef við njótum ekki menntunar, þekkjum við ekki réttindi okkar og skyldur,“ segir Jabbie. Hún leggur áherslu á þörf fyrir viðhorfsbreytingu, því fjölskyldur og samfélög banna sums staðar stúlkum að starfa við vísindi og tækni.

Valdefling stúlkna í Kakuma-flóttamannabúðunum

 Rúmlega 130 milljónir stúlkna í heiminum hafa ekki aðgang að menntun. Kakuma-flóttamannabúðirnar í norðvestur Kenía er einn þeirra staða þar sem ungar stúlkur hafa minni aðgang að menntun og geta síður þróað hæfileika sína en strákar, ekki síst í upplýsinga- og tölvutækni.

Umohoza Hurlarain, Nyamam Gai Gatluak, og Mumina Khalif nemendur í Angelina Jolie-skólanum. Mynd:. © UN Women/Ryan Brown

 Angelina Jolie-skólinn er eini heimavistarskólinn fyrir stúlkur í búðunum og mikil samkeppni er um pláss. Skólavist er eini möguleikinn fyrir margar þeirra til að geta einbeitt sér að námi. Margir nemendanna nota netið í fyrsta skiptið þegar þeir koma í skólann og læra bæði um innviði tölvu og forrit. Kennd er kóðun tölvuleikja og verið er að vinna að þróun smáforrits til að kenna stúlkum í dreifbýli að kóða.

Nemendurnir eru ástríðufullir þegar réttindi stúlkna til menntunar og jafnrétti er annars vegar, en mæta mörgum hindrunum.

„Þegar stelpurnar koma heim, leggja þær bækurnar til hliðar og fara að elda eða sinna heimilisstörfum. Þær hafa því engan tíma til að læra,” segir Nyman Gai, ein nemendanna.

Björt stafræn framtíð fyrir alla

Spjaldtölva í kennslustund hjá ungum stúlkum í Yaonde í Kamerún
Spjaldtölva í kennslustund hjá ungum stúlkum í Yaonde í Kamerún. © UNICEF/Frank Dejongh.

 Brúun stafræna bilsins bætir líf kvenna og stúlkna umtalsvert og eykur famlag þeirra til samfélagsins. Af þessum sökum er brýnt að hvetja stúlkur og gefa þeim ráðrúm til að ná árangri í námi og leggja stund á vísinda-, tækni-, verkfræði- og stærðfræðigreinar.

Margar stúlkur hafa hæfileika í ýmsum vísindagreinum, en inngrónar staðalímyndir eru þrándar í götu. Af þeim sökum efast margar stúlkur um hæfileika sína til að ná árangri og missa áhugann. Það er brýnt að sýna stúlkum að þær hafi eitthvað fram að færa í nýsköpun og tækni og við að breyta heiminum.