Talibanar sakaðir um stríðsglæpi

0
745
Afganistan
Móðir og börn hennar sem flúðu átök í Lashkargah og leituðu skjóls í Kandahar í suður-Afganistan.Mynd: © UNICEF Afghanistan.

Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur fordæmt ofbeldisverk Talibana á þeim svæðum sem þeir hafa lagt undir sig að undanförnu í Afganistan.

 Michelle Bachelet, mannréttindastjóri hvatti til þess að stríðandi fylkingar snéru aftur að samningaborðinu í Doha. Hún sagði  að „ótti og skelfing“ hefði gripið um sig í Afganistan og fólk flýði heimili sín í stríðum straumum.

Konur hafa verið hýddar og myrtar á svæðum sem Talibanar hafa hertekið og blaðamenn og mannréttindafrömuðir hafa sætt árásum og verið drepnir, sagði Bachelet.

Aftökur

Afganistan
Fimm milljónir hafa flosnað upp í Afganistan. Mynd: IOM/Mohammed Muse

Frásagnir um brot sem „kunna að teljast stríðsglæpir og glæpir gegn mannkyninu“ hafa komið fram. Þar á meðal eru „sérstaklega alvarlegar fréttir“ um að stjórnarhermenn sem hafa gefist upp, hafi verið teknir af lífi. Tölur frá aðeins fjórum borgum benda til að 183 óbreyttir borgarar þar hai látist og 1.181 særst, þar á meðal börn.

Áður en síðasta sókn Talibana hófst gegn borgum höfðu Sameinuðu þjóðirnar skýrt frá auknu mannfalli óbreytta borgara.

Talibanar voru reknir frá völdum á vikunum eftir árásina á Bandaríkin 11.september 2001. Þeir hafa hafið stórsókn eftir að Bandaríkin ákváðu að kalla herlið sitt heim. Búist er við að þeir reyni að ná stærstu borg norðurhluta landsins, Mazar-i-Sharif, á sitt vald.

Árangur gæti þurrkast út

Talskona mannréttindastjórans Ravina Shamdasani segir að fyllsta ástæða sé til að óttast að framþróun mannréttinda undanfarna tvo áratugi þurrkist út ef Talibanar komist til valda á ný.

„Konur hafa nú þegar verið skotnar og drepnar fyrir að brjóta reglur. Í Balkh-héraði var baráttukona fyrir kvenréttindum myrt,“ sagði Shamdasani.  Mannréttindastjóranum ( OHCHR)  hafa borist frásagnir um „aftökur, ára´sir á núverandi og fyrrverandi embættismenn stjórnarinnar, eyðilegging heimila, skóla og heilsugæslustöðva“, þar sem Talibanar hafa náð völdum.

Nú þegar eru 5 miilljónir manna á vergangi í Afganistan og hafa 359 þúsund manns flosnað upp það sem af er þessu ári.

Svíar munu hætta aðstoð

Ef Talibanar ná yfirráðum í Afganistan munu Svíar hætta þróunaraðstoð sinni.

„Ef Talibanarnir ná yfirráðum yfir ríkinu tel ég útilokað að við höldum áfram þessari aðstoð,“ segir Per Olsson þróunarmálaráðherra Svía.