Árangur náðst í Afganistan en mikið ógert

0
514

afghanistan women

3. janúar 2013. Kona í Parwan héraði í Afghanistan var tekin af lífi opinberlega í júní síðastliðnum eftir að Talíbanar sökuðu hana um hjúskaparbrot. Í júlí var yfirmaður deildar sem sér um málefni kvenna í Laghman héraði myrt og í desember var arftaki hennar, Najia Seddiqui, myrt.

Þessi morð og svipuð atvik á svæðum utan yfirráðasvæðis afgönsku stjórnarinnar eru í brennidepli í nýrri skýrslu um ofbeldi gegn konum í Afganistan. Í skýrslunni sem unnin var af Sameinuðu þjóðunum í Afganistan eru látnar í ljós áhyggjur af því að “íhaldsöfl sem berjast gegn réttindum kvenna” séu að eflast.
Í skýrslunni er sérstaklega fjallað um árangur í því að hrinda í framkvæmd löggjöf frá 2009 en þar var í fyrsta skipti bannað að gifta börn, neyða einstakling í hjónaband og allt ofbeldi gegn konum, þar á meðal nauðgun, bönnuð.

Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna hefur krafist þess að haft verði upp á morðingjum Najia Seddiqui. Það verður að vera fullkomlega skýrt að “þeir sem ráðast á konur í Afganistan verði dregnir fyrir dómstóla”, sagði talsmaður skrifstofunnar Rupert Colville.

Ábyrgð var lýst á hendur Talibana fyrir morð fyrirrennara hennar en í skýrslu UNAMA, sendisveitar SÞ í Afganistan er bent á að háttsettur embættismaður ríkisstjórnarinnar hafði haft í hótunum við hana. Hafði hún neitað að gefa upplýsingar um búsetu 19 ára gamallar stúlkur sem embættismaðurinn vildi kvænast en stúlkan var þegar gift manni sem hún hafði sjálf valið.

UNAMA segir jákvætt að sífellt fleiri dæmi um ofbeldi gegn konum komi til kasta yfirvalda. Mjög fá mál leiða þó til sakfellingar, segir í skýrslunni. Einn Þrándur í götu árangurs er að afganska lögreglan vísar oft og tíðum málum til svokallaðra Jirga (öldungaráða) eða Shura (héraðsnefnda)  “sem oft og tíðum grafa undan lögunum um bann við ofbeldi gegn konum og styðja ríkjandi ástand.”