Tíu milljónir skugga

0
466
Statelessness Banksy graffiti. Photo Flickr John Cooper. 2.0 Generic CC BY NC ND 2.0

Statelessness Banksy graffiti. Photo Flickr John Cooper. 2.0 Generic CC BY NC ND 2.0

Apríl 2015. Tíu milljónir manna í heiminum eru án ríkisfangs, eða álíka margir og samanlagður íbúafjöldi Noregs og Danmerkur.

Ríkisfangslausir einstaklingar falla á milli stafs og hurðar í lagalegum skilningi og hafa enga lagalega sönnun fyrir tilveru sinni. Þetta gæti hljómað eins og hvert annað skrifræðislegt vandamál, en er í raun martröð þeirra sem í því lenda því þeir njóta ekki grundvallar borgaralegra-, pólitískra-, menningarlegra-, og félagslegra réttinda.

Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) telur að meir en 680 þúsund manns séu ríkisfangslausir í Evrópu, þar af er meira en helmingur í Eystrasaltsríkjunum. Í heiminum eru 10 milljónir manna ríkisfangslausar.

„Þú ert bara skuggi…fólk á leið framhjá og sér þig ekki,” segir Nusret Hodžić. Hann var serbneskur ríkisborgari, fæddur í Kosovo, en hafði verið statelessness. Nusret Photo UNHCR N.Lukinbúsettur í 15 ár í Svartfjallalandi þegar hann var sviptur ríkisfangi sínu. Nusret missti ekki aðeins skilríki sín. 

„Maður er algjörlega réttindalaus. Það má líkja þessu við mann sem lifir venjulegu lífi, en allt í einu er fóturinn tekinn af honum. Í einu vetfangi er hann fatlaður. Svona er ástatt fyrir mér. “

Nusret var sviptur ríkisfangi. Að vera ríkisfangslaus þýðir að ekkert ríki viðurkennir þjóðernislega stöðu þína lagalega og þar af leiðandi eru ríkisfangslausir einstaklingar skilríkjalausir. Engu er líkara en slíkir einstaklingar hafi verið krýndir huliðshjálmi því í augum kerfisins eru þeir ósýnilegir.

Ósýnileikinn veldur því að viðkomandi eiga ekki greiða leið að stofnunum samfélagsins því ekki aðeins hefur lyklinum að menntun, heilsugæslu og löglegri atvinnu verið kastað burt, heldur einnig möguleikum til að ferðast, opna bankareikning, fá ökuskírteini, kjósa, giftast og skrásetja fæðingu barna.

Síðastnefnda atriðið er þungt á metunum því í sumum tilfellum erfist ríkisfangsleysi og kynslóð eftir kynslóð stendur utan samfélagsins. Þetta á við í þeim ríkjum þar sem þjóðerni fylgir eingöngu foreldri. Til allrar hamingju eru lög flestra ríkja rýmri og geta viðurkennt alla íbúa landa sinna sem ríkisborgara, að sögn UNHCR. 

Orsakir ríkisfangsleysis

Stateless Roma Girl Photo UNHCR N.LukinOrsakir ríkisfangsleysis eru margvíslegar en sameiginlegur orsakavaldur er einhvers konar tómarúm í lögum hvers ríkis um þjóðerni. Í sáttmála frá árinu 1954 er reynt að hanna alþjóðlegan ramma sem er reistur á grunni skilgreiningar á ríkisfangsleysi en hún er forsenda þess að leysa vandann. Þar er reynt að fylla upp í lagalegt tómarúm af völdum þess að ekki hafa verið lagðar línur á hverjum stað fyrir sig.

Flest Evrópuríki hafa undirritað eða hrint ákvæðum sáttmálans í framkvæmd, en þrátt fyrir það hafa mörg mál risið sem snúast um túlkun laga og framkæmd í hverju landi fyrir sig.

Í mörgum tilfella er það ekki viljaverk að þrengja að fólki sökum ríkisfangsleysis og brjóta mannréttindi þeirra heldur er handvömm á ferðinni eða lagaleg vandamál. Ný ríki hafa verið stofnuð og landamærum breytt sem hafa haft í för með sér lagaleg vandamál með þeim afleiðingum að fjöldi fólks er fast í lagalegri óvissu og þar með einangrun, útilokun og einsemd.

Nusret var fæddur í fyrrverandi Júgóslavíu. Margir sukku í lagalegt kviksyndi við upplausn Júgóslavíu og urðu ríkisfangslausir þegar nýju ríkin settur sér lög um þjóðerni.

En í sumum tifellum er ríkisfangsleysi afleiðing þjóðernislegrar-, trúarlegrar-, eða kynbundinnar mismununar.

Oft og tíðum er minnihlutahópum meinað um ríkisfang og glíma við mikla erfiðleika við að fá aðgang að gögnum sem styðja þjóðerni. Málareksturinn getur reynst þung byrði. „Einstaklingurinn glímir við neikvæða sönnunarbyrði. Hann þarf að að sanna að hann sé EKKI annarar þjóðar,” bendir Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna á.

Eystrasaltsríkin

Landfræðilegt og pólitískt landslag Austur-Evrópu tók miklum stakkaskiptum við upplausn Sovétríkjanna, ekki síst í Eystrasaltsríkjunum. Fólk af rússneskum uppruna var gert að blórabögglum, þegar íbúar Eystrasaltsríkjanna fögnuðu því að vera lausir undan aldalöngu oki. Skorður voru settar við því að Rússar sem bjuggu innan landamæra Eystrasaltsríkjanna, Eistlands, Lettlands og Litháen, fengju ríkisborgararétt, þegar þau öðluðust sjálfstæði.

Við lok árs 2013 voru 267 þúsund manns ríkisfangslausir í Lettlandi og 91 þúsund í Eistlandi, samkvæmt tölum Flóttamannahjálparinnar.Statelessness Photo Flickr UNHCR G.Constanstine

Án ríkisborgararéttar stendur fólk höllum fæti andspænis misnotkun, og getur átt á hættu ofsóknir og fangelsun. Ríkisfangsleysi takmarkar verulega efnahagsleg-, pólitísk-, félagsleg-, og menningarleg tækifæri.

Án þjóðernis og sönnunar um lagalega stöðu, er ríkisfangslaust fólk skilið eftir ósýnilegt í dimmu og á erfitt uppdráttar við að marka sér stöðu í heiminum.

Þeir sem vilja leggja þeim lið geta tekið þátt í herferð Flóttamannahjálparinnar við að uppræta ríkisfangsleysi.
#IBelong

Myndir: 1.) Verk eftir Banksy

2.) Nusret,er 49 ára ríkisfangslaus maður í Svartfjallalandi. „Mér líður eins og ég sé í sóttkví, ég get farið ferða minna innanbæjar, en kemst ekki annað skilríkjalaus. Ég get ekki heimsótt veika móður mína í Kosovo.” UNHCR / N.Lukin

3.) Roma-fólk á erfitt uppdráttar við að öðlast ríkisfang í Króatíu. Zahirovic- fjölskyldan er ríkisfangslaus og býr í einu herbergi án rennandi, vatns, rafmagns og salernis í Vrtni Put í Króatíu. Fjölskyldna lifir á að safna járnbútum. UNHCR / N.Lukin

4.) Kóreubúi fluttist til Úkraínu árið 1993 en hefur ekki getað skrásett áratugarlanga sambúð með úkraínskri konu. UNHCR / G. Constantine