Tryggja ber öllum heilsugæslu

0
781
COVID-19 Hjúkrunarfólk
Mynd: Landsspítali/Þorkell Þorkelsson

Að njóta heilbrigðisþjónustu eru mannréttindi. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hvetur veraldarleiðtoga til þess á Alþjóða heilbrigðisdaginn 7.apríl að tryggja að slíkt verði að veruleika. Öllum ber að njóta aðgangs að grundvallar og gæða heilbrigðisþjónustu hverjir sem þeir eru og hvar sem þeir búa. Enginn ætti að þurfa að sligast undan kostnaði.

Heimsfaraldurinn hefur sýnt fram á hversu brýnt er að öllum heimsbúum standi til boða læknismeðferð og nauðsynleg bóluefni sem gagnast samfélaginu í heild sinni.

Tryggja ber hverri einustu manneskju aðgang að góðri heilsugæslu án þess að verða fátækt að bráð.

Margir verða að borga of fjár fyrir heilsuna

Langur vegur er frá því að heilbrigðisþjónusta standi öllum veraldarbúum til boða. Ein ástæða þess að margir mega þola örbirgð er sú að þeir verða að borga of fjár fyrir heilsugæslu. Ekki nægir hins vegar að útvega heilbrigðisþjónustu til að ráða bót á allra brýnustu kvillum og slysum. Einnig ber að sinna forvörnum. 

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hvetur veraldarleiðtoga til að standa við þau fyrirheit sem gefin voru þegar Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun voru samþykkt árið 2015. Grípa þarf til raunhæfra aðgerða og gangast undir skuldbindingar til þess að efla heilbrigði fólks hvarvetna.  

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur til þess í ávarpi á Alþjóða heilbrigðisdaginn að tryggja öllum aðgang að heilbrigðisþjónustu.

“Nú þegar sér fyrir endann á COVID-19 faraldrinum ber að hrinda í framkvæmd stefnumörkun og tryggja fjármagn til þess að allir njóti sömu heilbrigðis-úrræða… Við skulum skuldbinda okkur á Alþjóða heilbrigðisdeginum að vinna saman að heilbrigðari og sanngjarnari heimi.”

Alþjóða heilbrigðisdagurinn er haldinn 7.april ár hvert en þann dag árið 1949 var Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) stofnuð.