Umræður veraldarleiðtoga hefjast í dag

0
521

Umræður

25. september 2012. Árlegar almennar umræður á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hefjast í dag en pólitískir leiðtogar allra 193 aðildarríkja heimssamtakanna taka þátt í umræðunum.

Samkvæmt hefð ávarpa Brasilíumenn almennu umræðurnar fyrstir en gestgjafar Sameinuðu þjóðanna, Bandaríkjamenn, sigla í kjölfarið. Umræðurnar hefjast klukkan 1 eftir hádegi að íslenskum tíma og talar Barack Obama, forseti Bandaríkjanna á eftir forseta Brasilíu.

Finnar eru eina norræna ríkið sem efla fram þjóðhöfðingja sínum en Sauli Niinistö tekur þátt í umræðunum í fyrsta skipti síðan hann var kjörinn forseti Finnlands.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra ávarpar Allsherjarþingið á laugardag 29. september upp úr klukkan 13.40, að íslenskum tíma. Tekið skal fram að lítið þarf út af bregða til að þessi tímasetning geti breyst, en reynt verður að uppfæra tímasetninguna hér á www.unric.org/is eftir því sem nær dregur.

Umræðurnar eru sýndar beint hér http://webtv.un.org/live-now/watch/24-hour-live-and-pre-recorded-programming/1571671822001/, en þar er einnig sýnt beint frá ýmsum blaðamannafundum og atburðum í tengslum við Allsherjarþingið.

80 þjóðhöfðingjar og oddvitar ríkisstjórna taka þátt í Allsherjarþinginu en flest ríki senda þó utanríkisráðherra, td. Norðurlöndin að Finnlandi undanskildu, eins og fyrr segir.

Evrópusambandið á fulltrúa í almennu umræðunum og hefur Herman Van Rompuy, forseti Evrópska ráðsins stöðu oddvita ríkisstjórna.
Evrópuþingið mun svo eiga fulltrúa á Allsherjarþinginu í fyrsta skipti.

Mynd: Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ávarpar sérstakan fund Allsherjarþingsins í gær um réttarríkið. Vuk Jeremić, forseti 67. Allsherjarþingsins hlýðir á við hlið hans. SÞ-mynd: Rick Bajornas