Verndar gegn bankahruni krafist

0
466

Sepuvelda
9. október 2012. Evrópuríkjum ber að koma í veg fyrir að hugsanlegt bankahrun í framtíðinni verði til þess að ekki sé hægt að tryggja mannréttindi þeirra sem lakast standa, segir í yfirlýsingu hóps sjálfstæðra sérfræðinga á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Þeir krefjast þess að Evrópuríki taki tillit til skuldbindinga sinna í mannréttindamálum við endurbætur á bankakerfinu í kjölfar umfangsmikillar skýrslu um endurskipulagningu bankageira Evrópusambandsins. Sérfræðingarnir starfa sjálfstætt en eru skipaðir af Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

“Ríkjum ber skylda til að sjá til þess að eins miklu og auðið er, sé varið til þess að tryggja, vernda og framfylgja réttindum,” segir Magdalena Sepúlveda, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna um sárafátækt og mannréttindi. “Þar á meðal að nægilega mikið sé aflögu til þess að tryggja mannréttindi hinna fátækustu.”

 “Af þessum sökum verða ríki að tryggja að fjárlög séu ekki í uppnámi vegna hugsanlegrar björgunar banka í framtíðinni og skapa lagaramma sem tryggi að ekki sé gengið um of á sameiginlega sjóði til þess að bjarga fjármálafyrirtækjum,” segir hún.

Álit sérfræðinganna er andsvar við svokallaðri Liikanen skýrslu sem kom út í síðustu viku. Hún er úttekt á vegum hátt settra sérfræðinga Evrópusambandsins en þar er mælt með ýmsum aðgerðum til að vernda evrópska skattgreiðendur fyrir búsifjum vegna bankahruns og vernda fjármálakerfið fyrir áföllum.

Útgjöld Evrópuríkja vegna björgunar fjármálafyrirtækja námu  4.5 þúsund milljarðar evra eða 37% af efnahagsframleiðslu á árunum 2008 til 2011.
 “Þessar risavöxnu upphæðir eru aukaleg- og ófyriséð útgjöld sem hafa sökkt ríkisstjórnum í ósjálfbært skuldafen og í mörgum tilfellum valdið þjóðfélagsþegnum óbærilegu harðræði, ekki síst þeim sem búa við fátækt. Niðurskurðarstefna hefur oft og tíðum verið í blóra við skyldur ríkja til að tryggja efnahagsleg- félagsleg- og menningarleg réttindi,” segir Sepúlveda.

Alfred de Zayas, sjálfstæði erindrekinn á sviði aukins lýðræðis og jöfnuðar á alþjóðavettvangi leggur svo áherslu á að Evrópuríki hafi látið hjá líða að ráðast að rótum vandans en gripið í þess stað einvörðungu til samdráttaraðgerða sem stefni ekki aðeins í voða velferð íbúanna í dag heldur einnig komandi kynslóðum. “Það eru skýrir valkostir við núverandi aðgerðir við að finna lausnir á fjármálakreppunni, til dæmis að skera niður framlög til svokallaðra varnarmála og draga úr öllum útgjöldum til hermála,” segir de Zayas.

Mynd: Magdalena Sepúlveda Carmona, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna um sárafátækt og mannréttindi. SÞ/Evan Schneider.

Sjá nánar hér: http://www.ohchr.org/en/NewsEvents/Pages/DisplayNews.aspx?NewsID=12630&;LangID=E