Vestur-Sahara: gleymdasti harmleikur heims

0
446
WSahara2

WSahara2

7.mars 2016. Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna heimsótti flóttamenn frá Vestur-Sahara í heimsókn sinni til Alsírs.

Ban sagði brýnt að létta þjáningar flóttamannanna en „aðstæður þeirra væru óásættanlegar”. Ban sagði að viðræður á milli deilenda hefðu engum árangri skilað.

„Það er átakanlegt og sorglegt að upplifa hina miklu reiði…margir tjáðu reiði sína, fólk sem hefur þurft í fjörutíu ár að lifa við erfiðustu aðstæður og finnst sem heimurinn hafi gleymt þeim,“ sagði Ban eftir að hafa hitt flóttamenn og fulltrúa ungs fólks í Smara-flóttamannabúðunum og loks Mohamed Abdelaziz, oddvita Polisario-samtakanna.

WSahara1Átök brutust út á milli Marokkó og Polisario eftir að Spánn lagði niður nýlendustjórn sína árið 1976. Marokkóstjórn náði þá yfirráðum yfir stærstum hluta Vestur-Sahara.

Samkomulag um vopnahlé náðist 1991 og sveit Sameinuðu þjóðanna MINURSO var falið það hlutverk að fylgjast með því að vopnahléið væri virt og að skipuleggja atkvæðagreiðslu meðal íbúanna um framtíð Vestur-Sahara.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur farið fram á að slík atkvæðagreiðsla sé haldin frá 2004.

Marokkó hefur hins vegar lagt fram áætlun um sjálfsstjórn landsvæðisins. Polisario vill á hinn bóginn almenna atkvæðagreiðslu á meðal íbúanna, Sahrawi-fólksins þar sem þeir geti notað sjálfsákvörðunarrétt sinn, og sjálfstæði verði einn vallkostanna.

„Helsta markmið mitt í heimsókn minni til þessa heimshluta er að meta stöðuna sjálfur og leggja minn skerf fram til lausnar,“ sagði oddviti Sameinuðu þjóðanna. „Þá vil ég kynna mér frá fyrstu hendi einn gleymdasta mannlega harmleik okkar tíma. Flóttamannabúðirnar nærri Tindouf eru á meðal hinna elstu í heimi og það er skelfilegt til þess að hugsa að fjölskyldum hafi verið sundrað svo lengi.“ Hann sagði að takast yrði á við vanda fólksins óháð pólitískri lausn.

Ban skoraði á ríki heims að láta fé af hendi rakna til Sahrawi-fólksins sem er landflótta.

„Við verðum að sýna og sanna að heimurinn hefur ekki gleymt Sahrawi fólkinu. Í því skyni mun ég efna til ráðstefnu gefenda og hjálparsamtaka í Genf.“

Mynd: 1.) Flóttamenn úr röðum Sahrawi fólksins sem byggir Vestur-Sahara tekur á móti Ban Ki-moon. 2.) Ban Ki-moon þiggur te í tjaldi flóttafólks. UN Photo/Evan Schneider