ESB standi fast gegn þrýstingi tóbaksiðnaðarins

0
459

tobacco epidemic 310px

8.október 2013. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur lýst yfir stuðningi við nýja tilskipun Evrópusambandsins um varnir gegn tóbaksreykingum.

Tilskipunin sem heilbrigðisnefnd Evrópuþingsins hefur til umfjöllunar felur í sér nýjar og hertar reglur um framleiðslu tóbaksvara, kynningu og sölu. Nánar tiltekið er gert ráð fyrir banni á sölu sígarettna, reyklauss tóbaks og sigarettutóbaks sem innihalda bragðefni . Að auki verða myndrænar viðvaranir um skaðsemi gerðar að skyldu á öllum sígarettum og einnig tóbaki sem neytendur rúlla sjálfir.

 Dr. Margaret Chan, forstjóri WHO fagnar tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem Umhverfis-, heilbrigðis- og matvælaöryggisnefnd Evrópuþingsins hefur haft til umfjöllunar undanfarinn mánuð. 

„Það gleður mig að í núverandi mynd dregur tilskipunin dám af víðtækum stuðningi Evrópubúa við heilbrigðissjónarmið þegar tóbaks-faraldurinn er annars vegar. Margar rannsóknir sýna að Evrópubúar styðja harðar opinberar aðgerðir í tóbaksmálum. Ég vona að þessi sami stuðningur verði ofan á við lokameðferð tilskipunarinnar á næsta þingfundi Evrópuþingsins,“ segir Dr. Chan í yfirlýsingu.

Tilskipunardrögin gera ráð fyrir að hún taki til vöru sem komið hefur á markað frá því tóbaksvarnatilskipun ESB var samþykkt fyrir áratug. Ekki síst skipta svokallaðar rafsígarettur máli, svo og ýmis konar lyfjagrös sem reykt eru. Sérstakar merkingar og innihaldslýsingar verða gerðar að skilyrði fyrir sölu munn- og neftóbaks. Snúss verður áfram bannað.

Forstjóri WHO bendir á að tóbaksneysla og óbeinar reykingar kosti 700 þúsund manns lífið á ári hverju í ríkjum Evrópusambandsins. “Þessi faraldur kostaði 100 milljónir manna lífið á síðustu öld og ef ekki verður að gert gæti milljarður manna látist á 21.öldinni.“

Dr. Chan hvetur Evrópuþingmenn til að láta ekki deigan síga og „láta ekki undan þrýstingi“. “Tóbaksiðnaðurinn hefur enn eina ferðina skorið upp herör, að þessu sinni gegn tilskipun ESB. Hann virðist láta einskis ófreistað til þess að koma í veg fyrir stýringu á þessum vörum. Átæðan er auðvitað sú að að regluverk hefur gefist svo vel í að draga úr þeim gríðarlega skaða sem tóbaksvörur valda. Tóbaksiðnaðurinn grípur enn og aftur til efnahagslegra raka , vitandi að þau hafa oft dugað vel til þess að beina athyglinni frá heilbrigðissjónarmiðum, ekki síst nú á tímum sparnaðar á öllum sviðum,“ segir forstjóri WHO.