0.5% hernaðarútgjalda fara til friðargæslu

0
485
UNAMID Peacekeepers on Patrol. UN Photo Stuart Price

UNAMID Peacekeepers on Patrol. UN Photo Stuart Price

29.maí 2015. 126 friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna týndu lífi við skyldustörf á síðasta ári. 

125 þúsund manns eru nú við friðargæslustörf á vegum samtakanna og hafa aldrei verið fleiri.

Sameinuðu þjóðirnar hafa í nær sjö áratugi sent friðargæslusveitir á átakasvæði. Friðargæsla samtakanna hefur getið sér orð fyrir að vera lögmæt, áreiðanleg og skilvirk aðferð við að vernda óbreytta borgara og greiða fyrir lausn deilna og brúa bilið á milli átaka og varanlegs friðar. En nú á okkar dögum er „eftirspurn meiri en framboð á úrræðum“ og friðargæsla Sameinuðu þjóðanna á undir högg að sækja.

„Friðargæslan er oft kennd við bláu hjálmana sem friðargæsluliðar bera. Þeir hafa þurft að erfiða og færa fórnir en bláu hjálmarnir eru tákn vonar í augum milljóna manna í stríðshrjáðum ríkjum,“ segir Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi á Alþjóðadegi friðargæsluliða SÞ sem er í dag 29.maí.

MINUSTAH peacekeeper assist flood victim in Haiti UN Photo Marco DorminoFriðargæsla hefur leikið lykilhlutverk í að koma á stöðugleika í ríkjum á borð við Líberíu, Timor-Leste og Bosníu-Hersegóvínu og hefur þannig greitt fyrir endurreisn þeirra eftir átök. Í dag eru meir en 125 þúsund hermenn, lögreglumenn og óbreyttir borgarar að störfum í 16 friðargæslusvietum um allan heim og hafa aldrei verið fleiri. Þessi fjöldi er staðfesting á tiltrú alþjóðasamfélagsins á friðargæslu sem tækis til að tryggja frið og öryggi.

„Sannleikurinn er sá að friðargæsluliðar okkar eru oft og tíðum eina von óbreyttra borgara um betra líf,“ segir Hervé Ladsous, framkvæmdastjóri friðargæsludeildar Sameinuðu þjóðanna. „Á öðrum stöðum þar sem friðargæslusveitir starfa, er enginn friður til að gæta,“ segir hann og bendir á við hve erfiðar aðstæður þeir starfa. Oft og tíðum er starf þeirra að vernda skelfingu lostna óbreytta borgara og takast á við margslungna hættu á hverjum degi þar sem pólítískur óstöðugleiki ríkir.

Brýn þörf fyrir alheimsstuðning

Ladsous bendir á brýna þörf á að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna auki þátttöku sína í friðargæslu í  heimi þar sem „eftirspurn eftir henni er mun meiri en framboð“, eins og Ban Ki-moon orðar það á ávarpi á alþjóðlega deginum. „Við þurfum öflugri pólítískan stuðning frá aðildarríkjunum sem eru ábyrg fyrir að heimila, fjármagna og útvega her og lögreglu til friðargæslustarfa,“ segir Ban.

Aðalframkvæmdastjórinn bendir sérstaklega á nauðsyn á auknu fjármagni, þjálfun og tækjabúnaði. „Hermönnum okkar og lögreglu eru falin sífellt flóknari verkefni og til þeirra eru gerðar ítrustu kröfur um góða hegðun,“ bætti hann við og sagði: „Þróuðum ríkjum ber að axla að nýju sögulegt hlutverk sitt í að leggja friðargæslunni til herlið.“

Framkvæmdastjóri friðargæslunnar leggur áherslu á að hún sé staðráðin í að vera nýjungagjarnari, sveiganlegri og skilvirkari en nokkru sinni fyrr. UNAMID Peacekeepers on Patrol in Abyei. UN Photo Stuart Price„Fjárframlög til okkar eru um 8.5 milljarðar Bandaríkjadala (um 1140 milljarðar íslenskra króna), en það er jafnvirði minna en hálfs prósents heildarútgjalda til hermála í heiminum. Við vinnum látlaust að því að fá sem mest fyrir þetta fé, meðal annars með því að beita nýjum úrræðum til að sinna verkefnum okkar á sem skilvirkastan og ódýrastan hátt,“ segir Ladsous.

3300 týnt lífi

Rúmlega 3300 friðargæsluliðar hafa týnt lífi við störf undir fána Sameinuðu þjóðanna, þar af 126 á síðasta ári. Hætturnar aukast sífellt og friðargæsluliðar sæta árásum með heimatilbúnum sprengjum, auk tilræða hryðjuverkamanna. Í dag á Alþjóðadegi Friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna er minning þeirra sem týnt hafa lífi við skyldustörf heiðruð og þeim vottuð virðing sem halda merki þeirra á lofti á átakastörfum.

„Friðargæslusveitirnar eru árangursríkar því í starfi þeirra felst í raun kjarni meginsjónarmiðina á bakvið stofnun Sameinuðu þjóðanna,“ segir Ladsous. „Nú,á þeim tíma í sögunni þegar ný vandamál og átök blossa upp án afláts, er sífellt meira í veði í starfsemi friðargæslunnar og afleiðingarnar alvarlegar þegar árangri er ekki náð. Af þessum sökum hefur friðargæsla Sameinuðu þjóðanna aldrei þurft eins mikið á alheimsstuðningi að halda og einmitt nú“, sagir framkvæmdastjóri friðargæslunnar.

Myndir: 1.) Friðargæsliliðar í UNAMID sveitinni í Darfur í Súdan, UN/Stuart Price. 2.) Friðargæsluliði í MINUSTAH-sveitinni á Haítí aðstoðar fórnarlömb flóða, UN/Marco Dormino. 3.) Friðargæsluliðar UNAMID á eftirlitsferð í Abyei, á landamærum Súdans og Suður-Súdans. UN/Stuart Price.