Hendum mat sem gæti mettað 197 þúsund manns

0
542
foodwaste blog 810x608

foodwaste blog 810x608

29.maí 2015. Gunnar Smári Egilsson, blaðamaður skrifar athyglisverða grein um sóun matvæla í Fréttatímann  sem ástæða er til að vekja athygli á.

Greinin „Minnst borðað – mestu hent og sóað“ birtist hér í heild:

„Það er eitthvað meira en lítið bogið við matarframleiðslu, -dreifingu, -sölu og –neyslu í samfélaginu. Fyrir það fyrsta virðist maturinn verri og óheilnæmari með hverju árinu, í annan stað verða neytendurnir feitari og heilsutæpari, þá verða bændurnir blankari og verkamennirnir fátækari, svo er verr farið með dýrin og gróðurinn, sífellt meira notað af eiturefnum við framleiðsluna, meira af orku við flutninginn og meira af lýgi við söluna. Og svo borðum við minnst af matnum heldur hendum bróðurpartinum. Ef eitthvað er til í því að fólk sé það sem það borðar erum við á Vesturlöndum sturluð og viti skert.

Við þurfum ekki að hugsa lengi um hvað og hvernig við borðum; hvernig maturinn er ræktaður, hversu langt hann er fluttur eða hvernig honum er pakkað, hann auglýstur og seldur; til að átta okkur á það er eitthvað meira en lítið bogið við þetta allt. Þetta getur ekki átt að vera svona. Það er eitthvað verulega skakkt í samfélaginu okkar ef við klúðrum jafn veigamiklum grunnþætti lífsins svona rækilega.

Ef þið sættist á að eitthvað sé bogið við matvælaframleiðslu, -dreifingu, -sölu og –neyslu í nútímasamfélagi Vesturlanda; ef þið eruð ekki viss um að offitufaraldurinn bendi til alvarlegrar skekkju; meðferðin á dýrunum, eiturefnin sem notuð eru við ræktunina, þrælahaldið undir plastdúkunum á grænmetisökrunum, lygin sem skrifuð er á pakkningarnar, aukaefnin sem eru sett í matinn svo hann þoli flutning milli heimsálfa og mánaðalanga geymslu á lagerum og hillum stórmarkaðanna – ef ekkert af þessu sannfærir ykkur um að matvælakerfið sé rotið inn að kjarna; þá ættum við kannski að velta fyrir okkur sóuninni í þessu kerfi – öllum matnum sem er hent.

Hendum mat sem gæti mettað 197 þúsund manns

Það er talið að hver íbúi Evrópu hendi um 90 kílóum af mat árlega; tæplega 250 grömmum á dag. Samkvæmt þessu munu Íslendingar henda tæplega 30 þúsund tonnum af mat á þessu ári, rúmlega 80 tonnum á dag. Þetta hljómar mikið; en er þetta mikið?

Það er erfitt að segja til um hvers kyns matur þetta er upp á gramm; en við getum gefið okkur að sá matur sem fer í sorpið sé ekki svo ólíkur að næringagildi og maturinn sem við þó borðum. Ef við gefum okkur að fullorðin manneskja þurfi að meðaltali um 2100 kaloríur á dag og að það séu að meðaltali um 4 kaloríur í hverju grammi af mat almennt; þá gætu Íslendingar brauðfætt 155 þúsund manns með matnum sem þeir henda. Ef við gerum ráð fyrir að í hópnum séu jafn mörg börn og fullorðnir; myndi maturinn sem Íslendingar henda duga til að metta um 197 þúsund manns.
Að sama skapi gætu allir íbúar Evrópu brauðfætt um 443 milljónir manna með matnum sem þeir henda. Það er mikill fjöldi, vel rúmlega helmingur þess fólks sem býr í Afríku sunnan Sahara. 

GSE2

Evrópumenn sóa og henda mat sem myndi nægja til að metta alla íbúa Afríku og gott betur.

Búum til mat fyrir þrjá, borðum einn skammt en hendum tveimur

En því miður er þetta bara hálf sagan – og varla það. Talið er að hver Evrópubúi hendi um 90 kílóum af mat en áður en hann hefur borið matinn heim til sín hefur framleiðslukerfið, dreifingin og stórmarkaðarnir hent og sóað mat sem nemur meira en tvöföldu því magni sem einstaklingarnir henda – eða um 190 kílóum árlega á hvert mannsbarn í álfunni.

Samkvæmt því gætu Íslendingar ekki aðeins brauðfætt 197 þúsund manns með matarsóun sinni heldur 614 þúsund manns. Segja má að hver Íslendingar noti mat sem myndi duga rétt tæplega til að næra þrjá menn. Við borðum fyrir einn en hendum matnum fyrir hina tvo.
Á sama hátt má segja að Evrópumenn gætu mettað 1.380 milljónir manna með þeim mat sem þeir henda og sóa. Það er meiri fjöldi en býr í allri Afríku. Það mætti bæta við svo til öllum íbúum Suður-Ameríku við borðið.

Frakkar farnir að nýta auðlindir óhófsins

En auðvitað er þetta ekki alveg svona einfalt. Einhver sóun er óhjákvæmileg. Það hefur aldrei verið svo að hver einasta matarögn sé borðuð og melt. Ef við berum Evrópu saman við Suðaustur-Asíu, þar sem fólk hefur búið við mannmergð og nýtni á litlu landsvæði öldum saman en tekið upp iðnvædda ræktun og framleiðslu á undanförnum áratugum með tilheyrandi sóun; þá hendir fólk á þessu svæði árlega um 15 kílóum af mat á hvert mannsbarn til viðbótar við þau 125 kíló sem sóað er eða hent við framleiðslu, flutning og sölu. Ef Íslendingar gætu komið sér á þetta stig gætu þeir ekki lengur mettað 614 þúsund manns með matnum sem þeir sóa, heldur aðeins 274 þúsund manns. Þeir gætu semsé sparað sér að framleiða eða kaupa 51 þúsund tonn af mat á hverju ári; mat sem jafngildir ársþörf um 340 þúsund manns. Rétt rúmlega einni íslenskri þjóð.

Evrópa gæti að sama skapi sparað sér að framleiða mat sem myndi rétt tæplega duga til að brauðfæða alla íbúa Afríku sunnan Sahara.
Þessar eru stærðirnar inn í þessari risavöxnu auðlind sem bíður þess að verða virkjuð; óhóf okkar Vesturlandabúa. Franska þingið varð fyrst þinga í Evrópu í síðustu viku til að setja lög sem banna stórmörkuðum að henda mat. Viðurlögin eru sektir allt að 11 milljónum íslenskra króna. Sektirnar fara eftir stærð verslana og alvarleika brotsins; alvarlegast er að hella lút yfir matinn í sorptunnunum svo fólk geti ekki nýtt sér hann. Verslanir sem eru stærri en 400 fermetrar er gert skylt að gera samning við hjálparsamtök, sem taka að sér að gefa matinn til fátækra, eða umbreyta honum í skepnufóður. Markmið franskra stjórnvalda er helminga sóunina á næstu tíu árum. Búist er við að flest lönd Evrópu muni fara að dæmi Frakka, enda hefur Evrópusambandið gefið út tilmæli um að ríkin komi böndum á sóunina.

GSE

Hagkerfi drifið áfram af syndinni

Óhóf var löstur að mati Forn-Grikkja. Hófsemd var ein af höfuðdyggðunum. Óhóf var líka synd meðal kristinna þótt hún hafi ekki fengið nafn og númer meðal dauðasyndanna sjö — ekki beint; en bæði ágirnd og græðgi hvíla á óhófi. Í öllum menningraheimum hefur óhóf verið talið brjóta niður karakter og samfélög manna. Í dýraríkinu fyrirlítum við meira að segja minkinn fyrir að drepa fleiri dýr en hann getur torgað. En við erum sjálf minkurinn. Hænsnabúið er fullt af hræjum þegar við höfum étið nægju okkar.
Óhóf er orðið þungamiðja í samfélögum Vesturlanda. Og það breiðist hratt út til annarra heimshluta. Ætli það myndi ekki skella á djúp kreppa í Evrópu ef takast myndi að koma sóun matvæla niður á það sem stig sem hún er í Suðaustur-Asíu? Miðað við breskar áætlanir um kostnað vegna matarsóunnar má ætla að meðal-Íslendingurinn hendi mat fyrir um 29 þúsund krónur á ári. Því til viðbótar er sóað og hent mat fyrir um 61 þúsund krónur á ári á hvert mannsbarn við framleiðslu, flutning og sölu á mat; samtals 90 þúsund krónur á íbúa. Það gera rétt tæpa 30 milljarða króna á ári fyrir landsmenn alla. Ef Íslendingum tækist að færa sóunina niður á stig Suðaustur-Asíu þyrfti ekki að framleiða, dreifa eða selja matvæli að verðmæti um 17 milljarðar króna. Það jafngildir fasteignamati Hörpu og er nærri því sama upphæð og verðmæti útflutnings járnblendis var í fyrra. Nokkur fjöldi fólks myndi því missa vinnuna ef okkur tækist að hemja sóunina – allavega tímabundið þar til það tæki upp gáfulegri störf en að framleiða mat fyrir ruslatunnurnar.

Andleg kreppa mannsins

Í síðustu viku skrifaði ég á þessum stað um þá hugmynd að félagslegir og efnahagslegir ágallar samfélagsins kynnu að vera birtingarmynd einhverskonar skekkju í undirstöðum þess, sem brenglaði allt sem kæmi þar á ofan. Félagslegt ranglæti, efnahagsleg kreppa og stjórnmálaleg stöðnun væru þannig mismunandi birtingarmyndir andlegrar kreppu. Samfélagið virkaði ekki vegna þess að enginn vissi í raun hver staða hans innan samfélagsins væri; hvar ábyrgð hans lægi, hverjar skyldur hans væru og hvers hans gæti vænst af öðrum. Samfélagið hefði tapað tilgangi sínum. Það væri ófrjótt. Afrakstur þess ynni í raun gegn hagsmunum fólks; þrátt fyrir mikið erfiði, mikla tæknikunnáttu og víðtæka uppsafnaða þekkingu væru afurðirnar geldar, lífvana, dauðar.

Þessi hugmynd er í raun svar við vangaveltum um hvernig á því standi að samfélög, sem virðast hafa allt til alls og getu til að leysa hvern vanda, skuli ekki byggjast upp af réttlæti og kærleika. Hún byggir á þeirri vissu að maðurinn sé í raun góður – alla vega ekki illur. Þótt hann sé syndaselur og spillist auðveldlega, þurfi eitthvað til að spilla honum. Hann sé ekki illur að upplagi. Og eins og hann geti spillst af illum aðstæðum þá geti hann líka blómstrað við góðar aðstæður.

Meginkröfur búsáhaldabyltingarinnar voru um mannaskipti fremur en stefnubreytingu.

GSE3

Andleg kreppa á Íslandi

Margur Ísdingurinn hefur dundað sér við að hugsa eftir þessum brautum eftir Hrun. Af umræðunni að merkja virðast þó flestir leggja mesta áherslu á upplag en minni á uppeldi. Vinsælasta skilgreiningin á Hruninu er að þar hafi fáir eðlisvondir menn vélað um örlög fjöldans, sem ekki hafði varann á. Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði á þessum nótum: Stefnan brást ekki heldur mennirnir. Þótt flokkurinn njóti ekki mikils fylgis um þessar mundir virðast flestir Íslendingar sammála flokknum að þessu leyti.

Krafa Búsáhaldabyltingarinnar var um nýja ríkisstjórn, nýja stjórn Seðlabankans og nýja stjórn Fjármálaeftirlitsins – semsé nýtt fólk, en ekki endilega nýja stefnu eða róttækt uppgjör. Búsáhaldabyltingin sigraði og byltingarfólkið fékk öllum sínum kröfum framfylgt. En líklega eru ekki margir í dag sem telja að uppfylling þessara krafna hafi nokkru breytt. Í öllum grunnatriðum er íslenskt samfélag það sama í dag og fyrir Hrun og það sama og fyrir búsáhaldabyltinguna.

En auðvitað er ekki hægt að ræða hrun samfélaga og andlegar kreppur að baki þeim út frá Hruninu á Íslandi eða afleiðingum þess. Áður en tvær setningar eru sagðar stendur einhver upp og hrópar: Icesave! Næsti ber í borðið og segir: Kvótinn! Og sá þriðji: Ný stjórnarskrá!

Við skulum því halda okkur við matinn. Hann er eina umræðusvæðið sem býður upp á þokkalega friðsamt samtal. Innan hans má ræða áhrif eins menningarsvæðis á næsta, ólíkar afurðir iðnaðar og handverks og meira að segja mikilvægi náttúruverndar án þess að allt fari úr böndunum. Kannski eru það borðsiðirnir sem halda samræðum um mat á siðuðum nótum. Það sættir sig enginn við borðfélaga sem hrópar eitthvað um Icesave með fullan munninn.

Við skulum því halda okkur við hið augljósa hrun matvælaframleiðslu, -dreifingar, -sölu og –neyslu. Hvað gekk eiginlega á áður en niðurstaðan varð þessi; að við búum til, dreifum, seljum, kaupum og berum heim næstum því þrisvar sinnum meiri mat en við getum borðað? Af hvers völdum varð kerfið svona firrt?

Handabandskeðjan rofnar

En áður en ég reyni að svara því vil ég skjóta inn útskýringu á hruni fjármálakerfis Vesturlanda.
Þótt hrun fjármálaheimsins hafi komið aftan að flestum er nú almennt viðurkennt að sjá hefði mátt það fyrir. Rætur hrunsins eru taldar liggja í tilflutningi ábyrgðar innan kerfisins. Hinn hefðbundni banki byggði á þekkingu útibússtjórans á viðskiptavininum. Með árunum byggði hann upp þekkingu á fasteignamarkaði, veikleikum og styrk atvinnulífsins á sínu svæði. Útibússtjórinn þurfti að vera leikinn í að lesa fólk og þekkja. Hann þurfti að sá í gegnum óraunhæf áform og sjálfsblekkingu en varð líka að geta komið auga á einarðan vilja, þrek og þor. Hefðbundinn bankarekstur var þannig húmanískt fag; byggði á mannþekkingu og -skilningi.

Ofan á þessa þekkingu útibússtjórans byggðist pýramídi bankaheimsins. Útibússtjórinn lánaði þeim sem hann þekkti, bankastjórinn útibússtjóranum sem hann treysti og svo áfram upp í stærstu heildsölubankana. Þegar allt var brotið niður byggðust ógnarupphæðir fjármálalífsins upp á tröppugangi frá gamaldags samskiptum og handabandi fólks sem þekkti til hvers annars og var háð hvert öðru í daglegu lífi.

Á síðustu árum síðustu aldar umbreyttist bankakerfið. Þá töldu menn sig hafa fundið formúlur sem gætu reiknað út áhættu svo varla skeikaði eyri. Bankakerfið átti með þessu að losna úr viðjum gamaldags viðskiptahátta sem byggðu á mannlegum samskiptum. Með formúlunum var hægt að taka ákvarðanir um að lána fólki sem enginn þekkti. Útibússtjórar lánuðu samkvæmt krossaprófi og fengu að selja frá sér ábyrgðina til næsta banka, sem aftur gat keypt sér tryggingar gegn tapi á láni til útibúsins. Áhættan var svo kirfilega mæld og vegin að hægt var að selja hana og kaupa. Bankastarfsemi var ekki húmanísk lengur. Hún var verkfræði.

Þrátt fyrir hrun bankakerfisins, efnahagslífsins og stjórnmála víða um lönd hefur engri þjóð tekist að rata aðra leið en að endurbyggja það sem hrundi nánast óbreytt. Grikkir vilja reyna það en ríkisstjórnir annarra Evrópulanda sameinast um að hindra það.

Að þekkja vandann en ekki leiðina út

Allir þekkja afleiðingarnar. Eftir áratug byggðan á þessum formúlum hrundi bankastarfsemin í heiminum ekki aðeins til grunna heldur dró hún stærstan hluta efnahagslífsins með sér í fallinu, atvinnulífið og helstu stofnanir samfélaganna. Eftirlitskerfi matsfyrirtækja og fjármálaeftirlits reyndust gagnslaus. Þau voru hluti kerfisins og gátu því ekki komið auga á ágallana innan þess. Eftirlitsaðilarnir treystu á formúlurnar ekkert síður en bankarnir og féllu því með þeim.

Það magnaða við þessa sögu er sú staðreynd að eftir hrun bankakerfisins var það endurreist í óbreyttri mynd og sömuleiðis eftirlitskerfin, efnahagslífið, atvinnulífið og allar helstu stofnanir samfélagsins. Ástæðan var náttúrlega sú að þótt fólk hafi komið auga á hversu röng kerfin voru gat það ekki komið auga á hvað ætti að koma í staðinn.

Slík staða kallast andleg kreppa. Fólk er þá lokað inn í veröld sem reynist því illa en það ratar ekki út. Það treystir svo á lögmál hins fallna heims að það getur ekki annað en endurbyggt hann að nýju.

Í næstu viku langar mig að fjalla um hvernig andleg kreppa birtist í matvælaframleiðslu, -dreifingu, -sölu og –neyslu og hverjar eru hugsanlegar orsakir hennar. Það er nefnilega þannig að handabandskeðjan, sem slitnaði í bankaheiminum á síðustu árum síðustu aldar, hafði slitnað mörgum áratugum fyrr í matvælaheiminum. Í raun er sá heimur löngu hruninn. Og við höfum lifað í rústum hans lengi.“

Gunnar Smári Egilsson
[email protected]