4 milljónir stúlkna eiga á hættu að sæta kynfæraskurði á hverju ári

0
129
Jaha Dukureh sendiherra. UN Women í Afríku berst gegn kynfæramisþyrmingum. Mynd: UN Women/Ryan Brown.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að kynfæramsþyrmingar kvenna séu viðbjóðslegt mannréttindabrot sem valdi konum og stúlkum djúpstæðum og varanlegum skaða. 6.febrúar er Alþjóðadagur algjörs umburðarleysis gagnvart kynfæra umskurði kvenna.

„Það verður að binda enda á þetta birtingarform kynjamisréttis,“ segir Guterres í ávarpi á alþjóðlega deginum. „Með brýnum fjárfestingum og aðgerðum getum við náð því markmiði sem sett er í Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun að útrýma misþyrmingum á kynfærum kvenna fyrir 2030.“

Mannréttindabrot

Kynfæramisþyrmingar (FGM) eru hvers konar inngrip sem fela í sér meiðsli eða umbreytingu á kynfærum kvenna af öðrum ástæðum en læknisfræðilegum. Þær fela í sér mannréttindabrot samkvæmt alþjóðalögum og stofna heilsu kvenna og stúlkna í hættu.

Stúlkur sem sæta kynfæraskurði glíma við skammtímaafleiðingar á borð við mikinn sársauka, lost, miklar blæðingar, sýkingar og erfiðleika við þvaglát. Langtímaafleiðingarnar eru svo á sviði kynlífs, frjósemi og geðheilsu.

Kynfæramisþyrmingar eru aðallega stundaðar í 30 ríkjum í Aríku og Mið-Austurlöndum en er hins vegar alþjóðlegt vandamál, sem einnig þrífst sums staðar í Asíu og Suður-Ameríku. Þá viðgengst verknaðurinn í sumum innflytjendahópum í Vestur-Evrópu, Norður-Ameríku, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

COVID haft áhrif til hins verra

Óttast er að COVID-19 heimsfaraldurinn hafi haft áhrif tll hins verra. Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNFPA ) telur að tvær milljónir stúlkna til viðbótar kunni að verða útsettar fyrir þessu mannréttindabroti fyrir 2030 af þessum sökum. Til þess að bregðast við hafa Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra UNFPA og UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna aðlagað starf til að efla mótspyrnu þar sem neyðarástand ríkir.

Til að binda enda á kynfæramisþyrmingar þarf samstillta og kerfisbundna viðleitni. Virkja ber heil samfélög og beina kastljósi að mannréttindum, jafnrétti kynjanna, kynlífsmenntun og taka tillit til þarfa kvenna og stúlkna sem þjáðst hafa.

Sameinuðu þjóðirnar og samstarfsaðilar þeirra styðja við bakið á átaki sem miðar að því að breyta þeim félagslegu viðmiðum sem liggja að baki þessum verknaði. Ungt fólk og borgaralegt samfélag er víða farið að láta í sér heyra. Og löggjafarvaldið í mörgum ríkjum hefur fylgt í kjölfarið.

Átak Sameinuðu þjóðanna

UNFPA ásamt UNICEf hafa haft forystu í alheimsáætlun frá 2008 til að binda enda á kynfæramisþyrmingar kvenna. Þótt þær hafi viðgengist í meir en þúsund ár, er stefnan að útrýma þeim fyrir 2030. Það er í samræmi við anda fimmta liðs Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun. Um þessar mundir beinist átakið að 17 ríkjum í Afríku og Mið-Austurlöndum.

Kynfæramisþyrmingar
Eþíópíska stúlkan Mekiya ásamt foreldrum sínum. Móðir hennar vildi að hún undirgengist kynfæralimlestingu en faðir hennar Mude Mohammed snérist gegn því. Mynd: UNICEF Ethiopia/2020/ Mulugeta Ayene

Umtalsverður árangur hefur náðst. Með stuðningi áætlunarinnar hafa 5.5 milljónir stúlkna og kvenna notið forvarnastarfs, verndar og umönnunar í tengslum við kynfæramisþyrmingar. 42.5 milljónir hafa gefið út opinberar yfirlýsingar til stuðnings afnámi verknaðarins. Þá hefur kynfæraskurður á  rúmlega 360 þúsund stúlkum verið stöðvaður.

Sjá einnig hér og viðtal við Najmo Fiyasko Finnbogadóttur frá 2020 hér.