Að þrífa án þess að menga

0
504

Toilet photo thursday

21.nóvember 2013. Flest efni sem við notum á heimilum geta valdið vatnsmengun.

 

toiletdaylogoAf nógu er að taka, en sem dæmi má nefna garðáburð, olíu sem lekur af bílum og málningarafganga. En það eru ekki síst þau efni sem við notum við að þvo böð og klósett sem innihalda mengandi efni.

Svo einföld aðgerð sem að sturta niður eftir rækileg klósettþrif geta valdið mengun í nærliggjandi vatnsbólum.

En hvað er til ráða? Einfaldast er sennilega að forðast mengandi vörur og reyna að nota umhverfisvænni hreinsiefni. Spurðu ömmu þína, hún hefur kannski ráð undir rifi hverju, því hægt era að nota alvanalega hluti á borð við bökunarsóda, edik eða sítrónu við þrif. Haldbestu rökin fyrir þessu eru hins vegar þau að með því að nota mengandi hreinsiefni daglega getur þú verið að vinna þinni eigin heilsu tjón.

Tærandi efni í klósetthreinsi geta valdið skaða á augum, hörundi og í öndunuarfærum. Í staðinn er hægt að skrúbba baðherbergisflísar með tannbursta vættum upp úr bökunarsódadeigi sem vinnur vel á myglu og blettum. Á klósettið má svo nota fjórðung úr bolla af eimuðu hvítu ediki eða sítrónusafa og láta það svo bíða í nokkra klukkustundir áður en gripið er til burstans.

Fyrir utan heimalöguðu afurðirnar má finna víða í verslunum umhverfisvæn efni. Það er hins vegar oft ekki heiglum hent að greina sauðina frá höfrunum. Þótt Ísland sé ekki í Evrópusambandinu má finna hérlendis vörur sem merktar eru með gæðastimplinum ESB blóminu (EU flower) sem á að aðstoða neytendur við að finna umhverfisvæna vöru fljótt og auðveldlega.

Og Norðurlöndin hafa sjálf komið sér upp sambærilegri merkingu eða Svanamerkinu. Fleiri þúsundir vara hafa fengið þessa norrænu umhverfisvottun. Svanamerkið gerir ákveðnar umhverfiskröfur til vörunnar jafnt á framleiðslustigi hennar, á meðan hún er notuð og þegar hún hefur lokið hlutverki sínu og er hent.

Ekki má svo gleyma því að það getur verið mengandi að losa sig við lyf. Ef lyfjum er sturtað niður í klósettið getur það valdið því að innihaldið berst út í grunnvatnið og jafnvel alla leiðina í fiskinn sem við leggjum okkur til munns. Af þessum ástæðum er mikilvægt að skila ónotuðum lyfjum á réttan stað.

Alþjóða salernisdagurinn var haldinn í fyrsta skipti á vettvangi Sameinuðu þjóðanna 19. nóvember. Af því tilefni birtum við greinaflokk um hvaða hlutverki salernið gegnir í lífi nútímamannsins.