Ahtisaari hvetur til sjálfstæðis Kosovo, að sögn Le Monde

0
460

Martti Ahtisaari, erindreki framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna telur að sjálfstæði sé eina lausnin á Kosovo-deilunni, að því er franska blaðið Le Monde segir.

Blaðið segist hafa undir höndum bréf Ahtisaaris til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna en tillögur hans um framtíð Kosovo verða teknar til umræðu þar á mánudag.
Ahtisaari hefur unnið að því í meir en ár að leita sátta um lokastöðu Kosovo. Héraðið er hluti Serbíu en hefur verið undir stjórn Sameinuðu þjóðanna frá því NATO hrakti öryggissveitir Serba á brott í kjölfar ofsókna gegn Albönum sem eru 90% íbúanna.
Ahtisaari lagði fram tillögur í síðasta mánuði þar sem ekki var minnst á sjálfstæði. Viðræður serbnesku stjórnarinnar og heimastjórnar Kosovo undir forystu Albana sigldu í strand og Ahtisaari lagði tillögur sínar fyrir öryggisráðið. Í bréfi sem fylgir tillögunum og Le Monde segist hafa undir höndum segir: “Sjálfstæði undir umsjón alþjóðaliðs er eina raunhæfa lausnin.”
Ahtisaari skrifar að hvorki áframhaldandi stjórn SÞ né afturhvarf til serbneskrar stjórnar sé framkvæmanleg. Minnihluti Serba fengi veruleg yfirráð yfir eigin málum. Alþjóðlegir embættismenn frá Evrópusambandinu myndu hafa eftirlitshlutverk um skeið með ríkinu nýja auk þess sem hersveitir NATO yrðu um kyrrt. Bráðabirgðastjórn Sameinuðu þjóðanna yrði leyst upp.