Allsherjarþingið gagnrýnir innrás Rússa í Úkraínu

0
733
Allsherjarþingið
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í dag ályktun þar sem innrás Rússa í Úkraínu var hörmuð.

Hundrað fjörutíu og eitt ríki greiddi atkvæði með ályktuninni. Fimm voru á móti og þrjátíu og fimm ríki sátu hjá. Norðurlöndin voru í hópi meir en 90 meðflytjenda tillögunnar.

Guterres: skilaboðin eru skýr

„Allsherjarþingið hefur talað. Það er skylda mín sem aðalframkvæmdastjóra að fara eftir ályktuninni,“ sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna við blaðamenn eftir atkvæðagreiðsluna. „Skilaboð Allsherjarþingsins eru afar skýr: Bindum enda á átök í Úkraínu, strax. Látum vopnin þagna, strax. Hefjum viðræður, strax.“

Kína og Indland sátu hjá. Erítrea, Hvíta-Rússland, Norður-Kórea, Rússland og Sýrland greiddu atkvæði á móti.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna skaut Úkraínumálinu til Allsherarþingsins og er það aðeins í ellefta skipti sem slíkt gerist frá stofnun samtakanna. Heimild er fyrir því að gera slíkt þegar engin samstaða hefur náðst í ráðinu vegna beitingar neitunarvalds.

Samþykktir Allsherjarþingsins eru ekki bindandi.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðana hefur lýst yfir að innrás Rússa sé brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sjá einnig hér og hér. 

Hér fylgir listi þeirra ríkja sem sátu hjá: Alsír, Angóla, Armenía, Bangladesh, Bólivía, Búrúndí, El Salvador, Indland, Íran, Írak, Kasakstan, Kirgistan, Kína, Kongó, Kúba, Madagaskar, Malí, Mið-Afríkulýðveldið, Miðbaugs Gínea, Mongólía, Mósambik, Namibía, Nikaragva, Pakistan, Senegal, Simbabwe, Sri-Lanka, Suður-Afríka, Suður-Súdan, Súdan, Tadjikistan, Tansanía, Úganda og Víetnam.

Nokkur ríki greiddu ekki atkvæði.

(Uppfært).