Alþjóðlegi djass-dagurinn: Ekki bara tónlist

0
209
Alþjóðlegi djass-dagurinn
Mynd: UNESCO: IJD

Alþjóðlegi djass-dagurinn er haldinn 30.apríl ár hvert á vegum UNESCO, Mennta-, vísinda og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

„Átök og sundrung ríkir í mörgum heimshlutum, en ég vonast til að við getum fylkt liði, grætt sár, vakið vonir og glætt samvinnu til að hlúa að friði með því að nota alheims-tungumál djassins,” segir einn helsti forkólfur dagsins djasspíanistinn Herbie Hancock góðgerðasendiherra UNESCO

Alþjóðlegi djass-dagurinn
Mynd: Donald Giannatti Unsplash

Að venju er haldið upp á Alþóðlega djass-daginn með tónleikum – stjörnum prýddum – og verða innkomur listamanna frá alls 12 borgum, þar á meðal Beijing og Beirút, París, New York og San Fransisco.  Á meðal þeirra eru Dianne Reeves, Marcus Miller, Dee Dee Bridgewater, Christian McBride, Somi, Melody Gardot, Sérgio Mendes, Cyrille Aimée, Antonio Sánchez og John Beasley. Hlusta má á tónleikana á sunnudag kl. 8 að íslenskum tíma hér.

Allt er þetta tónlist

Alþjóðlegi djass-dagurinn
Mynd: Konstantin Aal Unsplash

Djassinn á rætur að rekja til Bandaríkjamanna af afrískum uppruna sem fundu upp nýja tónlistartegund um aldamótin 1900 í New Orleans í Louisianfylki. Þar var blandað saman blús og ragtime og vestur-afrískri tónlist. Hins vegar hefur vafist fyrir mönnum að skilgreina djass. Sumir segja hann blöndu afrísk-amerískra og vestrænna tónlistarhefða. Aðrir leggja áherslu á „swing“, spuna og gagnvirkni innan hljómsveita. Á síðari árum hefur flækjustigið enn aukist með með tilkomu undirdeilda á borð við bebop, sýrudjass, kúl-djass, djass-rokk og djassö-funk svo eitthvað sér nefnt. Spuninn virðist þó alltaf til staðar. Duke Ellington sagði einfaldlega: „Allt er þetta tónlist.“

Litblind tónlist

Alþjóðlegi djass-dagurinn
Dexter Gordon blæs í saxófón um borð í skipi á Eystrasalti. Wikimedia Commons.

Djassinn hefur oft og tíðum verið til staðar þar sem barist er gegn mismunun og ofríki, þar á meðal á Norðurlöndum. Nasistum var ákaflega uppsigað við djass, ekki síst Jósef Göbbels áróðursmálaráðherra nasista í Þýskalandi. Allt frá valdatöku nasista 1933 tóku and-fasistar djassinn upp á sína arma, til dæmis í Danmörku. Vinsældir danskrar djasshljómsveitar skipaðri þremur blökkumönnum og söngkonu af gyðingaættum voru til marks um andúð Dana á hernámi Þjóðverja á stríðsárunum.

Á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina sóttust bandarískir djassleikarar eftir því að leika og jafnvel setjast að í Evrópu, aðallega í Danmörku, sökum þeirrar mismununar sem blökkumenn sættu víða í Bandaríkjunum. Frægastur þeirra var Dexter Gordon en einnig bjó Stan Getz þar í nokkur ár þótt hvítur væri á hörund.

Djassinn virðist að minnsta kosti litblindur. Kannski hitti söngkonan og píanistinn Nina Simone naglann á höfuðið þegar hún sagði „Djass er ekki bara tónlist. Hann er lífsstíll, hann er ákveðin tegund hugsunar.“

Sjá einnig um alþjóðlega djassdaginn hér, hér og hér.