Djass var sagður ósamboðinn hvítum mönnum

Djass sló rækilega í gegn á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar og nýtur enn mikillar hylli. Alþjóðlegur dagur djass er í dag 30.apríl.

0
975
Jens Thekkeveettil on Unsplash
Mynd: Jens Thekkeveettil Unsplash

Djass sló rækilega í gegn á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar þrátt fyrir að haft væri fyrir satt að hann væri „ekki hvítum mönnum samboðinn.“   Alþjóðlegur dagur djass er í dag 30.apríl.

Djass er svo sannarlega talinn Íslendingum samboðinn í dag. Jafnvel er ekki laust við að það þyki fínt að telja sig djass-geggjara. Menningarvitar eru sagðir hlusta gjarnan á „ráman tenór sax” svo vitnað sé í óð Stuðmanna til djassins. Því kann að koma einhverjum á óvart að árið 1935 kallaði stærsta

Alþjóðlegur dagur djass

dagblað þjóðarinnar, Morgunblaðið til þekkt tónskáld, Björgvin Guðmundsson. Hann var spurður hreint út: „Er jazzinn blettur á menningu vorrar aldar?”.  Svar tónskáldsins var afdráttarlaust: „Hvítir menn eiga að skilja að jazz er þeim ekki samboðinn.“

Björgvins er ef til vill helst minnst fyrir lagið við ljóð Davíðs Stefánssonar „Abba-labba-lá/Hún var svört á brún og brá.” Í þessu viðtali sagði hann djassinn dægurflugu sem ekki væri á vetur setjandi. „Jazz er negramúsik”, sagði tónskáldið og færði rök fyrir því að einungis hörundsdökkir Bandaríkjamenn gætu spilað þá tónlist svo vel sé.

Að syngja með sínu nefi

Alþjóðlegur dagur djass
Mezzoforte

Á daginn kom að ekki þurfti dökkan hörundslit til eða bandarískt ríkisfang til að spila djass. Hver söng djassinn með sínu nefi.

„Það er ekki mikill Mississippitónn í norrænum djassi,” segir Eyþór Gunnarsson píanóleikari og félagi í Mezzoforte í viðtali í tilefni af Alþjóða djassdeginum.

En þótt Ísland væri langt frá Mississippi nam djassinn samt þar land. 1924 var þannig auglýst í blaði að „djass áhöld” væru væntanleg í verslun og var þar átt við trommusett. Hótel Borg varð griðastaður djassins eftir að hún var opnuð 1930. Erlendir tónlistarmenn léku þá djass innanum almenna dansmúsik. Bandaríski herinn flutti svo með sér djass. Á eftirstríðsárunum var djasslíf hér á landi í milm blóma. Rokkið gerði hins vegar næstum út af við íslenskan djass þar til spyrnt var við fótum í lok áttunda áratugarins með tilkomu Djassvakningar.

Flótti undan kynþáttafordómum

Margir Íslendingar urðu djassgeggjar í Kaupmannahöfn. Danir nutu þess að nokkrir bandarískir djassleikarar í fremstu röðu settust þar að og varð djassbúllan Montmartre Mekka þessarar tónlistar.

Round midnightÞótt djass næði fljótlega til hvítra Bandaríkjamanna glímdi þessi tónlistartegund við kynþáttafordóma. Kynþáttaaðskilnaður var í reynd víða í Bandaríkjunum. Eftir síðari heimsstyrjöldina ákváðu margir amerískir djasstónlistarmenn í fremstu röð að setjast að í Evrópu, ekki síst í París. Kvikmynd Bertrands Tavernier, Round  midnight segir þá sögu á eftirminnilegan hátt. Sú mynd byggir að einhverju leyti á ævi píanistans Buds Powell sem settist að í París eins og aðalleikarinn, saxafónleikarinn Dexter Gordon. Sá flutti sig síðar til Kaupmannahafnar rétt eins og píanóleikarinn Kenny Drew og hinn hvíti Stan Getz.

Löngum voru efasemdir um að Evrópubúar og raunar hvítir menn almennt gætu leikið djass, en meira að segja Norðurlandabúar með sitt kalda yfirbragð áttu eftir að afsanna það.

Söngur tímans

„Sveiflan var söngur tímans og gat af sér góða músíkanta og þegar saman fóru óvenjulegir hæfileikar og ytri skilyrði urðu stöku músíkantar þekktir víða,” segir Tómas R. Einarsson, tónlistarmaður. „Stofnun plötufyrirtækisins ECM gerði Norðmanninn Jan Garbarek frægan og Daninn Niels-Henning Örsted Pedersen spilaði með mörgum þekktustu stjörnum djassins frá unglingsaldri. En Belginn Django Reinhardt hefur trúlega haft mest áhrif á djassinn af evrópskum músíköntum.”

Eyþór Gunnarsson segir engan vafa leika á að skipt hafi máli fyrir norrænan djass að fyrrnefndir „stórmeistarar” djassins hafi sest að á Norðurlöndum, en einnig hafi norrænir tónlistarmenn leikið með ýmsum snillingum ytra.

„Allt var þetta til að auka sýnileika djasstónlistar á Norðurlöndunum og gera hana að mikilvægum hluta af menningarlífi landanna, ekki síst þegar norræn sönglög og þjóðlög voru orðin stór hluti af efnisskránni,” segir Eyþór.

Lifandi flutningur

Djassinum hefur eins og bókinni margoft verið spáð dauða, eins og Björgvin Guðmundsson gerði í Mogunblaðsviðtalinu árið 1935 eða fyrir rúmum 85 árum!

Alþjóðlegur dagur djass

Nýlega lauk Kári Egilsson stúdentsprófi í tónlist, 19 ára gamall, og hélt burtfarartónleika þar sem hans eigin djass-tónsmíðar voru á efnisskrá.  „Það sem höfðar til mín við djass er spuni og það nánast ótakmarkaða frelsi sem djassinn hefur upp á að bjóða.  Ég kann líka að meta þá þróuðu hljómfræði sem hefur mótast í djassinum.”

„Djass á vissulega framtíð fyrir sér þó óvíst sé að hann nái nokkurntímann aftur inn í meginstrauminn,” segir Eyþór Gunnarsson sem var leiðbeinandi Kári. Hann segir að vissulega sé býsna margt talið til djass og því erfitt að skilgreina hann. „Kjarni djasstónlistar er samt alltaf lifandi flutningur. Lifandi frásögn tónlistarfólks sem fer höndum um einhvern efnivið og segir sögu með hljóðfærum sínum eða röddum. Ég kalla það stundum að segja sögu um lag, frekar en bara að spila lag.“

Hlúa þarf að djassinum

„Það sem er sérstakt við íslenskan djass er hversu mikið af góðu tónlistarfólki eru á þessari fámennu eyju,” segir Kári Egilsson. „Samfélag djasstónlistarfólks á Íslandi er kannski ekki mjög stórt en það er ákveðin samheldni sem er ekki hægt að finna hvar sem er.”

En til þess að hæfileikafólk geti sagt sínar sögur þarf vissar aðstæður. „Skortur á húsnæði til tónlistarflutnings af þessu tagi er til dæmis mikið vandamál hér á landi. Opinber stuðningur getur skipt sköpum fyrir grasrótarstarf og skilað sér margfalt í lifandi menningarlífi,“ segir Eyþór Gunnarsson.

Alþjóðlegur dagur djassins er í dag 20.apríl. Sjá nánar hér og hér.

Sjá nánar um sögu djassins á Íslandi hér. http://jazz.is/saga-djassins-a-islandi/saga-djass-a-islandi/

Tómas R. Einarsson skrifaði á sínum tíma B.A. ritgerð um sögu djassins og skrifaði upp úr henni tvær forvitnilegar greinar sem birtust í Helgarpóstinum, hér og hér.

Viðtal við Björgvin Guðmundsson í Morgunblaðinu 1935 hér.