Alþjóðadagur mannfjöldans 2013 – Þunganir unglingsstúlkna í brennidepli.

0
474

 

2013 7 11 unfpa

11.júlí 2013. Fjöldi jarðarbúa sem nú er yfir sjö milljarðar manna hefur afgerandi áhrif á alla þróun. Áskoranirnar vegna mannfjölda eru margþættar og má þar helst nefna sjálfbærni, þéttbýlismyndun, aðgang að heilbrigðisþjónustu og aðstoð við að hlúa að, efla og styrkja æsku heimsins.

Á Alþjóðadegi mannfjöldans í ár þann 11.júlí er lögð sérstök áhersla á að vekja athygli á þeim heilbrigðisvandamálum sem fylgja þungunum unglingsstúlkna. Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) segir að u.þ.b. 16 milljónir stúlkna undir 18 ára aldri fæði barn á hverju ári og 3.2 milljónir stúlkna gangist undir óöruggar fóstureyðingar. Stór hluti þessara stúlkna er í þeim aðstæðum að eiga von á barni án þess að í því felist upplýst val um að ganga í gegnum meðgöngu, fæðingu og foreldrahlutverkið.

Oftar en ekki er meðgangan afleiðing af mannréttindabrotum hvers konar s.s. mismunun, barnahjónabandi, kynferðislegri misnotkun og eða ófullnægjandi menntun. Af þessum sökum eru þunganir unglingsstúlkna ekki eingöngu heilbrigðisvandamál heldur líka þróunarvandamál sem tengist fátækt, kyni og valdslegu ójafnrétti milli stúlknanna og þeirra sem feðrað hafa börn þeirra.

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna Ban Ki-moon tekur fram að umræðuefnið sé oftar en ekki viðkvæmt en nauðsynlegt sé að það fái athygli heimsbyggðarinnar. Á þann hátt er fyrst hægt að bæta stöðu og meðvitað val ungmenna í þessari stöðu. Fyrsta skrefið er bætt menntun og aðgangur að heilbrigðisþjónustu, “Ung stúlka sem gengur menntaveginn er margfalt líklegri til að fresta barneignum þar til hún er tilbúin, þær eru líklegri til að eignast heilbrigðari börn og hafa meiri möguleika á að vinna sér inn hærri tekjur” sagði Ban Ki-moon meðal annars í boðskap sínum.

Fæðingartíðni kvenna með litla eða enga menntun er hærri en hjá konum sem lokið hafa annari og þriðju prófgráðu. Í ofanálag er skortur á kynfræðslu til staðar í mörgum löndum.

Barneignir á unglingsaldri geta haft margskonar neikvæð áhrif í för með sér og er mæðra- og barnadauði hár í þessum aldursflokki ásamt vítahring heilsuleysis og fátæktar, á þetta sérstaklega við í þróunarlöndum. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna vill benda á í þessu samhengi að tryggja verður fjármagn og bæta aðgengi að menntun, heilsugæslu og ekki hvað síst hvattningu til unglingsstúlkna svo þær hafi tækifæri á að vera jákvætt afl til breytinga í samfélögum heimsins.

Ítarlegri upplýsingar og niðurstöður rannsókna m.a. vegna þungana unglingsstúlkna, verður að finna í Mannfjöldaskýrslu UNFPA(UNFPA’s State of World Population report 2013) sem kemur út 23.október 2013