Apríl er grimmastur mánaða í Darfur

0
572
eftir John Holmes aðstoðarframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á sviði mannúðarastoðar og samræmandi neyðarastoðar. 

Nú í apríl eru þrjú ár síðan að fyrirrennari minn í starfi, Jan Egeland vakti fyrst athygli Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á ástandinu í Darfur. Nú í apríl greindi ég Öryggisráðinu frá áframhaldandi harmleiknum í Darfur eftir för mína þangað. Hve marga slíka Aprílmánuði munu íbúar Darfur þola?   
Á þremur árum hefur fjöldi þess fólks sem treystir á þá líflínu mannúðaraðstoðar sem strengd hefur verið til Darfur fjórfaldast úr einni milljón í næstum fjórar. Á síðastliðnum mánuðum hefur það reynst sífellt torsóttara og hættulegra fyrir hjálparstarfsmenn að nálgast bágstadda Hvernig getum við leyst af hendi stærsta verkefni á sviði mannúðaraðstoðar í heiminum þegar geta okkar til að koma til hjálpar er skert á sama tíma og neyðin eykst? 
Ef við lítum á tölurnar sem snöggvast sést glögglega hve mikið hefur áunnist á þremur árum.  Og hve mikið er í húfi ef mannúðaraðstoð stöðvast vegna hótana og skriffinnsku. 
Þegar mannúðarstarfið í Darfur hófst fyrir alvöru í apríl 2004, sinntu 200 hjálparstarfsmenn á vettvangi 350 þúsund manns sem höfðu flosnað upp vegna átakanna. Nú aðstoða 13 þúsund starfsmenn, langflestir Súdanir, fjórum sinnum fleira fólki. Vannæring hefur minnkað um helming frá því um mitt ár 2004 og dánartíðni er komin niður fyrir mörk neyðarástands. 
En þessi árangur við að bjarga mannslífum gæti gufað upp snögglega. Vandamálin í Darfur eru með öllu óleyst og hafa teygt anga sína til nágrannaríkjanna Tsjad og Mið-Afríkulýðveldisins.     Um 420 þúsund manns hafa flúið heimili sín í Darfur frá því í maí fyrir ári, þrátt fyrir undirritun friðarsamnings. Heildar fjöldi flóttamanna er kominn yfir 2 milljónir sem er þriðjungur íbúa Darfur. Nauðganir og annars konar kynferðislegt ofbeldi er daglegt brauð og komast báðar stríðandi fylkingar upp með slík voðaverk án þess að nokkuð sé að gert. Vannæring fer vaxandi séstaklega utan flóttamannabúða á afskekktum, óöruggum svæðum.  
Sífellt torsóttara reynist að ná til bágstaddra og er nú svo komið að hættuástand virðist vera framundan. Við teljum að aðeins helmingur þess fólks sem á um sárt að binda vegna átakanna í Darfur hafi aðgang að hreinu vatni og grundvallar heilsugæslu. Innan við helmingur nýtur lágmarks hreinlætis. Það sem verra er: á hverjum tíma næst aðeins til fjórðungs þess sem fólks sem þarf á aðstoð að halda – sem þýðir að ekki sé hægt að kasta líflínu til 900 þúsund manns. 
Ráðist er á hjálparstarfsmenn sem er gróft brot á Genfarsáttmálanum. 12 hjálparstarfsmenn voru myrtir frá júní til desember 2006 sem var meir en tvisvar sinnum meira en samanlagt tvö árin þar á undan. 120 bílum hjálparstarfsmanna var stolið á síðasta ár. Slíkar árásir geta haft í för með sér að hundruð þúsunda manna fái ekki lífsnauðsynlega aðstoð vegna þess að hjálparstofnanir neyðist til að hætta starfsemi vegna árása á starfsfólk. Allir deilendur bera ábyrgð á árásum.
Þar að auki hafa skriffinnar ríkisstjórnarinnar lagt stein í götu aðstoðar, gert starfsmönnum lífið leitt og takmarkað ferðafrelsi þeirra. Ríkisstjórnin ætti augljóslega að hafa áhuga á að hjálpa þeim sem bjarga lífi þegnanna en hún virðist sjá sér lítinn hag í því. 
Hvað ber að gera? Í fyrsta lagi verður að stöðva þegar í stað allar árásir á óbreytta borgara af beggja hálfu, hvort heldur sem er vígasveita sem njóta stuðnings stjórnvalda eða uppreisnarmanna.  
Um miðjan þennan mánuð, 16. apríl, gaf ríkisstjórn Súdans til kynna að hún samþykkti annan lið stuðningsáætlunar Sameinuðu þjóðanna við friðargæslusveitir Afríkusambandsins. Við fögnum þessu og öllum þeim skrefum sem stigin eru til að vernda óbreytta borgara í Darfur. En mikilvægast er að hrinda þessu í framkvæmd hið snarasta og til þess þarf samvinnu stjórnvalda í Khartoum. Íbúar Darfur munu ekki þola neinar frekari tafir á því að komið verði upp sameiginlegri friðargæslu Sameinuðu þjóðanna og Afríkusambandsins.
Í öðru lagi þurfum við öruggan, óhindraðan aðgang að bágstöddum svo hægt sé að veita mannúðaraðstoð. Það var vissulega jákvætt að í ferð minni til Súdans var undirrituð sameiginleg yfirlýsing þar sem stjórnvöld í Kharthoum ítrekuðu loforð sitt frá 2004 um að greiða fyrir vegabréfsáritunum, tollafgreiðslu og fleira. Sérstök loforð hafa verið gefin og ég ætla mér að fylgjast náið með því að þau verði efnd. 
Loks skulum við ekki gleyma því að þótt mannúðaraðstoð sé nauðsynleg, kemur hún aldrei í stað pólitískrar lausnar. Við getum einfaldlega ekki haldið úti svo gríðarlega umfangsmikilli aðstoð svo árum skiptir. Eftir þriggja ára átök þurfa íbúar Darfur pólitiska lausn sem aldrei fyrr. Ég hvet deilendur til að styðja viðleitni sérstakra sendimanna Sameinuðu þjóðanna og Afríkusambandsins til að tryggja vopnahlé og draga alla aðila að samningaborðinu til að komast að varanlegu friðarsamkomulagi. 
 “Apríl er grimmastur mánaða,” skrifaði T.S. Eliot. Ég vona að næsta apríl og sannarlega ekki aprílmánuðinn þar á eftir, muni ég ekki þurfa flytja Öryggisáðinu fréttir af enn meiri manndrápum og fólksflótta í Darfur. Það er kominn tími til að binda enda á þessi hörmulegu átök.