Ávarp á fjórtánda afmæli þjóðarmorðsins í Rúanda 7. apríl 2008

0
436
Fyrr á þessu ári heimsótti ég minnisvarðann um þjóðarmorðið í Kigali. Heimsóknin snart mig djúpt eins og fyrsta heimsókn mín fyrir tveimur árum. Það hafði þó enn dýpri merkingu fyrir mig að koma þangað sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Þegar ég gekk um salina kenndi ég til í hjarta mínu yfir því hvað þjóðin mátti þola.  

Þegar þess er minnst að fjórtán ár eru liðin frá þjóðarmorðinu, verður mér hugsað til saklausra fórnarlambanna, þeirra átta hundruð þúsunda sem týndu lífi. Megi þau hvíla í friði. Hugsanir mínar leita til þeirra sem eftir lifðu. Megi hugrekki þeirra og þrautseigja verða okkur öllum leiðarljós.  

Sameinuðu þjóðunum ber skylda til að læra af lærdómum Rúanda. Þess vegna er þessi dagur helgaður því að efla það starf sem hindrað getur önnur þjóðarmorð. Ég er staðráðinn í því að vinna þeim málstað fylgis í starfi mínu sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Ég hef skipað í fullt starf sérstakan ráðgjafa til að hindra þjóðarmorð. Hann einbeitir sér að “verndarskyldunni” en öll ríki hafa gengist undir það að grípa til aðgerða í sameiningu í gegnum Öryggisráðið, þegar við blasir hætta á þjóðarmorði, þjóðernishreinsunum eða glæpum gegn mannkyninu. Ég mun ekki una mér neinnar hvíldar í því að þetta grundvallarsjónarmið verði ekki orðin tóm, heldur viðurkennt jafnt í orðum sem æði. Ég er líka jafn ákveðinn í því að ryðja mannréttindum braut hvarvetna; að þau séu virt, vernduð og varin og tryggja að þau verði sjálfsagður hlutur. Sameinuðu þjóðirnar beita sér á þessu ári fyrir vitundarvakningu til að tryggja að allt fólk, alls staðar,  þekki mannréttindi, skilji þau og njóti þeirra. Þetta er gert í tilefni sextugsafmælis Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem minnst er í ár. Oft helst það í hendur að það eru einmitt þeir sem þurfa mest á því að halda að réttindi þeirra séu virt, sem þurfa mest á því að halda að þeim sé skýrt frá tilvist Mannréttindayfirlýsingarinnar og að hún sé til fyrir þá.  

Við höfum öll hlutverki að gegna í þessari viðleitni: ríkisstjórnir, fjölmiðlar, almannasamtök og einstaklingar. Megi minningin um þjóðarmorðið í Rúanda eggja okkur til athafna.