Ballack skorar mark í baráttunni gegn Alnæmi

0
499

16. febrúar 2007   Michael Ballack er þekktur og dáður um allan heim fyrir knattspyrnuhæfileika sína en nú stefnir hann að nýju marki með því að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn HIV smiti og Alnæmi.
Ballack er aðalstjarnan í nýrri auglýsingu UNAIDS – Alnæmisstofnun Sameinuðu þjóðanna.

Auglýsingin var tekin upp á Stamford Bridge heimavelli knattspyrnuliðsins Chelsea sem Ballack hefur leikið með síðan 2006 en áður lék hann með Bayern Munchen. Í auglýsingunni sem er 30 sekúndna löng segir Ballack: ‘Á leikvellinum leikum við fast og tökum áhættu til að skora mörk. En þegar HIV er annars vegar tekur maður áhættu með lífið sjálf––Sýnið skynsemi og verjist."
"Margir þekkja knattspyrnumenn og líta upp til okkar og þess vegna finnst mér sjálfsagt að við tökum þátt í að berjast sameiginlega gegn HIV", sagði Ballack á meðan á upptökum stóð.
Ballack leikur listir sínar með knöttinn um leið og hann talar gegn HIV og tölfræði um Alnæmi er brugðið upp á skjáinn.  ‘Á níutíu mínútum – eða jafnlöngum tíma og knattspyrnuleikur stendur yfir, deyja 500 manns úr Alnæmi, þar af 180 undir 25 ára aldri.’
Eftir að hafa flutt texta sinn, skiptir Ballack um hlutverk og gerist dómari: blæs í flautuna, hrisstir höfuðið og dregur upp úr vasanum rauðan smokk!
Michael Ballack gerðist sérstakur erindreki UNAIDS í maí 2006 og hét því að berjast fyrir vitundarvakningu um Alnæmi.  

Sjá auglýsingu Ballacks: http://www.unaids.org/multimedia/streaming/PSABallack/PSABallack_wmv.html