Ban: endurvekja ber anda Reykjavíkur

0
514
Ban Summmit

Ban Summmit

9.október 2016. Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði í dag að að stigið hefði verið þýðingarmikið skref á leiðtogafundinum í Reykjavík fyrir 30 árum.

„Það leikur enginn vafi á því að leiðtogafundurinn í Reykjavík var skref í átt til öruggari heims,” sagði Ban í ræðu á fundi hins nyja friðarsetur sem kennt er við Höfða, fundarstað Reagans, forseta Bandaríkjanna og Gorbatjovs Sovétleiðtoga í Reykjavík 1986.

Ban speech HI„Þrjátíu árum síðar hefur aldrei verið brýnna að draga lærdóm af fundinum  í Reykjavík…Ef við lítum yfir sviðið sjáum við drauga Kalda stríðsins. Samningar um afvopnun eiga undir högg að sækja.”

Ban benti á að enn væru til 15 þúsund kjarnorkuvopn í heiminum.”Meira að segja eitt slikt vopn er of mikið. Aðeins eitt getur eytt mannkyninu.”

Ban sagði brýnt að endurvekja anda Reykjavíkurfundarins og sagðist sjá þrjá innbyrðis tengdar leiðir til þess.

Í fyrsta lagi þyrfti að endurvekja þá sameiginlegu hugsjón að friður og öryggi skuli ríkja.

„Slík viðleitni verður ekki aðeins að fela í sér að losa heiminn við kjarnorkuvopn heldur einnig að ná árangri í að koma böndum á hefðbundin vopn og draga úr allt of miklum framlögum til hermála. Of mikið er af vopnum í heiminum og of lítið látið af hendi rakna til friðar.”

Í öðru lagi eggjaði aðalframkvæmdastjórinn Bandaríkin og Rússland til að taka forystu því 95% allra kjarnorkuvopna væru í þeirra eigu. Í þriðja lagi gæti ekkert komið í staðinn fyrir beinar viðræður þessara aðila.

Í lokaorðum sínum lagði Ban útfrá orðum Gorbatsjovs þegar hann sagði að á Reykjavíkurfundinum hefðu menn reynt að sjá handan við sjóndeildarhringinn.

„Við skulum hlúa að anda Reykjavíkur-fundarins, skyggnast um handan við sjóndeildarhringinn og stefna að kjarnorkuvopnalausum heimi.”

Myndir: UN photo/Rick Bajornas.