Ban í Doha: “Framtíð barna okkar er í hættu!”

0
470

DohaBan

5. desember 2012. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti þjóðir heims til að grípa til aðgerða til að sporna við því “vaxandi hættuástandi” sem fælist í loftslagsbreytingum.

 

Ban lét þessi orð falla í ávarpi á Doha-ráðstefnunni um loftslagsbreytingar en viðræðurnar færðust í gær (4. desember) upp á ráðherrastig.   

“Við skulum ekki reyna að blekkja okkur sjálf. Þetta er hættuástand. Okkur er öllum ógnað. Hagkerfi okkar. Öryggi okkar. Og velmegun barna okkar og þeirra sem á eftir koma,” sagði Ban við upphaf ráðherrafundar 18. ráðstefnu aðila að Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um Loftslagsbreytingar (UNFCCC) í Doha í Katar.

 “Hættumerkin eru hvarvetna í kringum okkur,” bætti hann við og benti á fordæmalausa bráðnun jökla, hækkandi yfirborð sjávar og uppblástur og þurrka víða um heim.
“Enginn er ósnortinn af áhrifum loftslagsbreytinga, hvorki ríkir né fátækir,” sagði hann. “Þetta er lífsspursmál fyrir gjörvalt mannkynið; lífshætti okkar og framtíðaráætlanir. Við verðum að axla ábyrgð. Við sjálf erum sameiginlega kjarni vandans. Og okkur ber að finna lausnir.”

195 aðilar Rammasamningsins, UNRCCC, sækja tveggja vikna ráðstefnuna en innan samningsins rúmast hin þekkta Kyoto-bókun frá 1997. Samkvæmt henni ber 37 iðnríkjum að hlíta lagalega bindandi takmörkunum á losun koltvíserings.

Eitt af helstu verkefnum fulltrúa á ráðstefnunni er að leita leiða til að framlengja Kyoto-bókunina en fyrstu ákvæði hennar renna út í lok þessa árs, 2012.

Mynd: Ban Ki-moon ávarpar Doha-ráðstefnuna í Katar í gær 4. desember. UNFCCC.