Ban Ki-moon gagnrýnir meðferð á flóttamönnum

0
418
ban ki moon addresses press conference occasion start seventieth session generalb086

 ban ki moon addresses press conference occasion start seventieth session generalb086

17.september 2015. Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að meðferð ungverskra yfirvalda á flóttamönnum sé „óásættanleg.”

Á blaðamannafundi í tilefni af byrjun 70.Allsherjarþings samtakanna skýrði Ban frá því að hann hefði talað við Victor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands til að leggja áherslu á að fjallað væri um málefni flóttamanna í samræmi við viðeigandi alþjóðlega samninga, þar á meðal Flóttamannasáttmálann og alþjóðleg mannréttindalög. „Hann sagðist myndu gera sitt besta,“ bætti Ban við.

„Mér var brugðið við að sjá hvernig þessir flóttamenn og farandfólk var meðhöndlað. Þetta er óásættanlegt…Þetta er fólk sem hefur flúið ofbeldi og ofsóknir og við verðum að sýna því samúð. Við verðum að haga okkur í samræmi við alþjóðleg mannúðarlög og sem manneskjur verðum við að útvega þeim lífsbjörg, húsaskjól og hreinlætisaðstöðu. Síðan getum við rætt málsmeðferð og búsetu.“

Ban benti á, að á heimsvísu, þyrftu 100 milljónir manna, eða sjötugasti hver maður, á lífsnauðsynlegri aðstoð að halda. „Samt, tekst okkur ekki að fjármagna beiðnir okkar um fjárhagsaðstoð.“

„Karlar, konur og börn, sem flýja stríð og ofsóknir, eiga skilið að fá aðstoð, þar á meðal hæli,” sagði aðalframkvæmdastjórinn. „Ég bið þá sem standa í vegi fyrir að flóttamenn njóti réttinda sinna, að setja sig í þeirra spor. Fólk, sem sætir tunnu-sprengjuárásum og grimmd í landi sínu, mun leita betra lífs annars staðar. Fólk sem hefur fá úrræði heimafyrir mun leita betri tækifæra annars staðar. Þetta er eðlilegt. Hvert okkar myndi gera slíkt hið sama fyrir sig og börn sín. Ég fagna því að mörg ríki gera allt sem þau geta í þágu fólksins sem er í nauðum statt.”

Ban nefndi sérstaklega Líbanon, en fjöldi sýrlenskra flóttamanna er fjórðungur af íbúafjöldanum. Tíundi hver maður í Jordaníu er flóttamaður frá Sýrlandi og tíundi hver Sýrlendingur (miðað við íbúafjölda landsins fyrir stríð) eða 2 milljónir hefur leitað skjóls í Tyrklandi.

„Ég hylli leiðtoga og íbúa annarra ríkja, þar á meðal Þýskalands, Svíþjóðar og Austurríkis fyrir að opna land sitt fyrir flóttamönnum og sýna samstöðu. Ég er einnig þakklátur fjárstuðningi margra ríkja til að takast á við mannúðlegar afleiðingar vandans, sérstaklega Bretland og Kúveit.“

Mynd: Ban Ki-moon og talsmaður hans Stéphane Dujarric á blaðamannafundi í New York í gær. SÞ-mynd: Mark Garten.