Ban lofar fegurð Íslands og hreina loftið

0
474

Photo: The UN Secretary-General greeted by Gunnar Bragi Sveinsson, the foreign minister of Iceland.  UN Photo/Eskinder Debebe.

2. júlí 2013. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lauk í dag fyrri degi opinberrar heimsóknar sinnar með fundi með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands og kvöldverði að Bessastöðum.

 Fyrr í dag hélt hann fjölsóttan fyrirlestur í Háskóla Íslands og heimsótti Alþingi þar sem hann ræddi við starfandi þingforseta og meðlimi utanríkismálanefndar.

Fyrr í morgun ræddi Ban Ki-moon við Gunnar Braga Sveinsson, utanríkisráðherra. Á fundinum lýsti Ban ánægju sinni með þátttöku Íslands í starfi samtakanna og hvatti íslensku ríkisstjórnina til að láta enn meira til sín taka í stuðningi við UN Women.

Á fundi með blaðamönnum sagði hann: “Ég er himinlifandi að vera kominn til þessa fallega lands. Ísland er tákn fyrir hreint loft og fegurð, friðarást og janfrétti kynjanna.”

Áhersla er lögð á loftslagsbreytingar og aðgerðir til að stemma stigu við þeim í heimsókninni. Ban hefur farið fram á stuðning Íslands við að ljúka lagalega bindandi loftslagssáttmála fyrir 2015. Hann heimsótti Hellisheiðarvirkjun og kynnti sér starfsemi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og annara stofnana háskóla SÞ hér á landi.

Þá heldur hann á Langjökul að eigin ósk. “Ég vil kynna mér frá fyrstu hendi hvernig jöklar Íslands hopa af völdum loftslagsbreytingar,” segir Ban.

Á morgun ræðir Ban við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra á Þingvöllum og heimsækir svo Bláa lónið áður en hann heldur flugleiðis til Kaupmannahafnar.

Mynd: Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra tekur á móti Ban Ki-moon fyrir utan Ráðherrabústaðinn. Gréta Gunnarsdóttir, sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum er á milli þeirra. SÞ-mynd/Eskinder Debebe.