Ban undirbýr leiðtogafund með Grænlandsheimsókn

0
455


Ban Greenland 1

 

27.mars 2014. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur kynnt sér afleiðingar loftslagsbreytingar af eigin raun í heimsókn sinni til Grænlands. Jöklar hafa hopað verulega á Grænlandi vegna hlýnunar jarðar. 

“Ég er bergnuminn af tign og fegurð þessa mikla lands. Hér eru meir en tvær milljónir ferkílómetra þaktir ís og þegar svo mikið landflæmi er þakið ís og snjó er ekki laust við að manni þyki það mikilfenglegt,” sagði Ban á sameiginlegum blaðamannafundi Aleqa Hammond og Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherrum Grænlands og Danmerkur.

“Samtímis hef ég þungar áhyggjur af því hver hratt jöklar skríða fram og hve hratt íshellan bráðnar enda veldur þetta hækkun yfirborðs sjávar sem hefur áhrif á umhverfi allra jarðarbúa,” bætti hann við.

Framkvæmdastjórinn og forsætisráðherrarnir heimsóttu Uummannaq sem er mörghundruð kílómetra fyrir norðan heimskautsbaug. Þeir drógu fána að hún og tóku þátt í bænastund í staðarkirkjunni. Framkvæmdastjórinn fór í sleðaferð og ræddi við óbreytta borgara. 

Ban fór í siglingu á hinum fræga Ilulissat firði sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Jökulinn í fjarðarbotninum hefur verið rannsakaður í 250 ár og eru þær rannsóknir til grundvallar þekkingu og skilningi á loftslagsbreytingum.
Heimsókn framkvæmdastjórans miðar að því að koma hreyfingu á umræður um loftslagsbreytingar í aðdraganda Leiðtogafundar sem Ban Ki-moon hefur boðað til í New York 23.september, degi áður en árlegar pólitískar umræður veraldarleiðtoga hefjast á vettvangi Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

Ban hefur boðað oddvita ríkisstjórna, fyrirtækja, fjármálaheimsins og borgaralegs samfélags til að ræða loftslagsmálin en kastljósið verður á lausnum og efnahagslegum ávinningi af því að bregðast skjótt við.