Barátta gegn fátækt þema Mandela-dagsins

0
2
Alþjóðlegur dagur Nelson Mandela
Alþjóðlegur dagur Nelson Mandela

Nelson Mandela var lengi umdeildur. Hægrimenn sökuðu hann um að vera hryðjuverkamann og kommúnista en vinstrimönnum fannst hann helst til sáttfús.  Í dag er 18.júlí sérstakur Alþjóðlegur dagur Nelson Mandela.

Nelson Mandela (1918-2013) var tuttugu og sex ára gamall þegar hann gekk til liðs við Afríska þjóðarráðið, sem barðist gegn kynþáttaaðskilnaði (Apartheid) í heimalandi hans Suður-Afríku. Á stjórnmálaferli sínum var hann talsmaður réttætis, frelsis, mannréttinda, sátta og baráttu gegn fátækt. „Það er auðvelt að brjóta niður og eyðileggja,” sagði Mandela. „Þeir eru hetjur sem tryggja frið og byggja upp.”

Mandela sat í fangelsi frá 1962 til 1990. Þá var honum sleppt og eftir viðræður Afríska þjóðarráðsins og stjórnvalda var boðað til kosninga og endir bundinn á kynþáttaaðskilnað.

Hann var kosinn forseti Suður-Afríku 1994 en árið áður hlaut hann Friðarverðlaun Nóbels ásamt leiðtoga hvíta minnihlutans F.W. De Klerk.

Alþjóðlegur dagur Nelson Mandela 2024

Þema dagsins í ár er baráttan gegn fátækt og sá ójöfnuður sem við stöndum andspænis í heiminum. „Ríkasta eina prósentið ber jafn mikla ábyrgð á eyðileggjandi losun gróðurhúsalofttegunda og tveir þriðju hlutar mannkyns,“ sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni dagsins.