Börn í Mið-Ameríka flýja glæpagengi og fátækt

0
497
Central American children main photo

Central American children main photo

1. september 2016. Ekkert lát er á flótta barna í Mið-Ameríku til Bandaríkjanna. Börnin eru á flótta undan ofríki grimmilegra glæpagengja og sárri fátækt.

Börnin eiga á hættu að vera rænt, seld mansali, nauðgað eða drepin á leið sinni að því er fram kemur í nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF).

Fyrstu sex mánuði ársins 2016 voru 26 þúsund fylgdarlaus börn og nærri 29.700 sem ferðuðust sem fjölskyldur verið stöðvuð við landamæri Bandaríkjanna. Langflestir í þeim hópi voru mæður og ung börn þeirra.

Central American children photo 2„Það er skelfilegt til þess að hugsa að þessi börn – flest táningar en sum yngri, skuli leggja á sig þetta erfiða og stórhættulega ferðalag í leit að öryggi og betra lífi. Þessi mikli straumur ungra flóttamanna og farandfólks er áminning um nauðsyn þess að takast á við ofbeldi og erfiðar félags- og efnahagslegar aðstæður í heimalöndunum,“ segir varaforstjóri UNICEF Justin Forsyth.

Skýrslan er gefin út í aðdraganda Leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um flóttamenn og farandfólk sem verður haldinn 19.september í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York auk leiðtogafundar undir forystu Barack Obama, Bandaríkjaforseta 20.september á meðan Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fundar. 

Stærstur hluti fólksins sem er stöðvað við landamærin kemur frá El Salvador, Guatemala og Honduras, en þar eru flest morð framin í heiminum að því er fram kemur í skýrslunni. Flestir eru á flótta undan grimmd glæpagengja eða fátækt og útskúfun, sem grefur undan menntunarmöguleikum og framtíðarvonum. Margir ferðast einnig norður til móts við ættingja sína.

Á fyrstu sex mánuðum 2014 voru meir en 44.500 fylgdarlaus börn stöðvuð við bandarísku landamærin. Fjöldinn minnkaði árið eftir og var þá 18.500 en hækkaði á ný fyrstu sex mánuði þess árs og var þá 26.000.

Þúsundir komast hins vegar aldrei að bandarísku landamærunum. 16 þúsund börn frá þessum þremur ríkjum voru stöðvuð af yfirvöldum í Mexíkó. Þar að auki týna hundruð farandfólks og flóttamanna lífi við erfiðar aðstæður við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó.

Margra annarra er saknað og er óttast að þeim hafi verið rænt, sætt mansali eða verið myrt. Sum barnanna, sem vísað hefur verið úr landi, lenda svo í klóm glæpagengjanna sem þau flýðu og komast ekki lifandi frá þeim viðskiptum. Af þessum sökum er þörf fyrir að þessi börn njóti verndar hvarvetna; heima, á leið sinni og á áfangastað, segir í skýrslunnni.

UNICEF vinnur að því, ásamt samstarfsaðiljum sínum að takast á við orsakir þess að börnin taka sig upp með því að styðja viðleitni stjórnvalda til að bæta líf barna og minnka ofbeldi í heimalöndum þeirra.