Búist við að hjálparstarf í Myanmar standi yfir í hálft ár

0
407

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði á ráðstefnu um aðstoð við Myanmar að hjálparstarf þar myndi taka að minnsta kosti sex mánuði.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ræðir við Than Shwe, oddvita herforingjastjórnarinnar í Myanmar 23. maí.

“Vonir standa til að aðstoð við þau svæði sem verst fóru út úr fellibylnum fari að berast í auknum mæli á næstu dögum,” sagði Ban á alþjóðlegri ráðstefnu til að safna fé til hjálparstarfsins sem haldin er í Yangon.  

Á föstudag tilkynnti framkvæmdastjórinn að yfirmaður herforingjastjórnarinnar Than Shwe hefði fallist á að leyfa öllum hjálparstarfsmönnum hvaðan sem þeir kæmu, að starfa á verstu hamfarasvæðunum.  

“Ég er vongóður eftir viðræður mínar við leiðtoga Myanmar undanfarna daga. Þeir hafa fallist á að gripið sé til skjótra aðgerða,” sagði framkvæmdastjórinn á ráðstefnunni. “Ég vona að hafi ríkisstjórnin verið hikandi á að leyfa alþjóðlegum hjálparstarfsmönnum að starfa hindrunarlaust í landinu, heyri það nú liðinni tíð.”   

2.4 milljónir manna þurfa á mannúðaraðstoð að halda í Myanmar. Ban sagði að hundrað og þrjátíu þúsund manns hefðu látist eða væri enn saknað eftir fellibylinn sem reið yfir Myanmar 2. maí.  

Meir en fimmtíu ríki sóttu ráðstefnuna sem Sameinuðu þjóðirnar og ASEAN, Samtök ríkja suðaustur Asíu héldu í sameiningu. 

Ban sagði að Myanmar hefði ekki sama bolmagn og Kína til að takast á við slíkar náttúruhamfarir. 60 þúsund manns létust í jarðskjálfta í Kína nýverið sem mældist 8 á Richter-kvarða. Ban heimsótti í gær jarðskjálftasvæðið í Kína.  “Það hafa raunar fáar þjóðir tök á að glíma við slíkan vanda án aðstoðar. Þess vegna erum við saman komin hér í Yangon.”