Charlize Theron, friðarsendiherra SÞ

0
494

  Óskarsverðlaunahafinn og baráttukonan Charlize Theron frá Suður-Afríku var skipuð friðarsendiherra Sameinuðu þjóðanna við sérstaka athöfn í New York í gær.  Theron mun einbeita sér að herferð til höfuðs ofbeldi gegn konum.

Asha-Rose Migiro, varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna afhenti Theron barmmerki með friðardúfu sem er tákn friðarsendiherra.

Skipun Theron er viðurkenning á starfi hennar að félagslegum málefnum einkum í Suður Afríku. “Þú hefur notað rödd þína, samúð og sérstök tengsl við almenning til að skapa betri heim,” segir í ávarpi Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til heiðurs Charlize Theron. “Þú hefur verið óþreytandi í viðleitni þinni við að bæta stöðu kvenna og barna í Suður-Afríku og sérstaklega í þeirri viðleitni að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum.”

Asha-Rose Migiro, varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tilkynnti skipan Theron í New York. Hún nefndi sérstaklega nýjar fréttir frá Sómalíu sem dæmi um við hve gríðarlegan vanda væri að etja. Þar var þrettán ára stúlka sem hafði kært nauðgun til yfirvalda, grýtt til bana að viðstöddum miklum mannfjölda.  “Fyrst beittu ofbeldismennirnir hana ofbeldi og síðan yfirvöldin. Því miður eru ofbeldisverk af þessu tagi framin í mismiklum mæli um allan heim, "sagði varaframkvæmdastjórinn.

 

 

Theron stofnaði Charlize Theron Africa Outreach Project,í samstarfi við Entertainment Industry Foundation, til að bæta líf, heilsu og öryggi fátækra barna og fjölskyldna í Suður Afríku, einkum þeirra sem þjást af HIV/Alnæmi. Hún hefur líka látið til sín taka í herferð gegn nauðgunum og heimilisofbeldi.  

 

Charlize Theron er bóndadóttir frá Suður Afríku sem vann Óskarsverðlaun fyrir leik í aðalhlutverki í myndinni Monster árið 2004. Hún lék fjöldamorðingjann Aileen Wuornos sem hafði verið misnotkuð í æskku. Þá lék hún Josie Aimes í myndinni North Country. Aimes var kona sem sætti heimilisofbeldi en reis upp gegn kynferðislegu ofbeldi.  

 

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ýtti úr vör í febrúar síðastliðnum árslangri herferð alls Sameinuðu þjóða kerfisins “Sameinumst til að uppræta ofbeldi gegn konum” (UNiTE to End Violence against Women).

 

Þróunarsjóður Sameinuðu þjóðanna fyrir konur (UNIFEM) hefur sem hluti af herferðinni hafið undirskriftasöfnun til stuðnings kröfunni um upprætingu ofbeldis gegn konum. Stefnt er að því að afhenda framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna eina milljón undirskriftir 25. nóvember, á Alþjóðlegum degi baráttunnar fyrir upprætingu ofbeldis gegn konum. Þegar hafa 490 þúsund undirskriftir safnast. Í frumkvæði UNIFEM er hvatt til þess að ríkisstjórnir geri baráttuna til að uppræta ofbeldi gegn konum að forgangsatriði í stefnumótun.  

 

“Ein af hverjum þremur konum og stúlkum er fórnarlamb ofbeldis um ævina. Við þurfum á öflugum bandamönnum að halda til að uppræta þessi útbreiddu mannréttindabrot,” sagði Inés Alberdi, forstjóri UNIFEM þegar Charlize Theron var skipuð friðarsendiherra.

 

 

 

Theron á blaðamannafundi í New York.

Theron sagði blaðamönnum að það væri ekki hægt að líta framhjá því mikla ofbeldis sem tröllréði heimalandi hennar Suður-Afríku. Talið er að þriðju hverri suður-afrískri konu sé nauðgað einhvern tíman á ævinni.

 

“Mér var ljóst þegar ég var að alast upp í Suður-Afríku að ofbeldi gegn konum og börnum myndi ekki hverfa af sjálfum sér og sannast sagna heldur ástandið áfram að versna," sagði Theron.   

 

Theron gengur nú til liðs við níu friðarsendiherra sem starfa í nafni Sameinuðu þjóðanna, hver á sínu sviði. Aðrir friðarsendiherrar eru Daniel Barenboim hljómsveitarstjóri (friður og umburðarlyndi) George Clooney, leikari (friðargæsla), Paulo Coelho, rithöfundur (fátækt og tengsl menningarheima), Michael Douglas, leikari (afvopnun),  

Jane Goodall, vísindamaður (umhverfismál) Midori Goto, fiðluleikari (Þúsaldarmarkmið um þróun og æskulýður) Haya Bint al Hussein, prinsessa (Þúsaldarmarkmið um þróun og hungur), Yo-Yo Ma, sellóleikari (æskulýður) og Elie Wiesel, rithöfundur (mannréttindi).