Darfur: Ban Ki-moon segir að stíga verði lokaskref í átt til endanlegrar lausnar í væntanlegum friðarviðræðum

0
456

10. september 2007 –Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að loknu viku ferðalagi til Súdans, Tsjad og Líbýu að hann muni áfram einbeita sér að því að binda enda á deiluna í Darfur. Hann segir að leiðtogar ríkja á svæðinu séu sammála um að reynt verði að stíga lokaskref í átt til fullnaðarlausnar í viðræðunum í næsta mánuði


Ban sagði fréttamönnum í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York að niðurstöður viðræðnanna við ráðamenn í ferðinni, þar á meðal Omar el-Bashir, forseta Súdans, Idriss Déby, forseta Tsjads og Muammar Ghaddafí, leiðtoga Líbýu, hafi verið jákvæðar.  

“Heimsókn mín var mjög gagnleg og uppbyggileg í þá átt að stuðla að skjótri lausn á ástandinu í Darfur,” sagði Ban. Uppreisnarmenn annars vegar og stjórnarherinn hins vegar og bandamenn hans í Janjaweed vígasveitunum hafa barist í þessu fátæka héraði frá 2003. 200 þúsund hafa látist og meir en 2.2 milljónir flúið heimili sín. 

Í ferð sinni tilkynnti Ban að sendimenn Sameinuðu þjóðanna og Afríkusambandsins Jan Eliasson og Salim Ahmed Salim muni stýra viðræðum um pólitíska lausn á milli ríkisstjórnar Súdans og hópa uppreisnarmanna í Darfur. Viðræðurnar hefjast 27. október í Tripoli í Lýbíu.  

Ban og Alpha Oumar Konaré munu einnig stýra í sameiningu fundi háttsettra fullltrúa um málið í New York 21. September og Tsjad mun hýsa undirbúningsfund uppreisnarhópa í Darfur síðar í þessum mánuði. “Ég er bjartsýnni. Við verðum að byggja á þessum árangri til að stilla til friðar í því skyni að íbúarnir geti notið aukins öryggis og velmegunar.” 

 Sjá nánar: http://www.un.org/apps/news/story.asp?NewsID=23754&Cr=Sudan&Cr1=