Darfur og loftslagsbreytingar eru tveir kvistar á sama meiði eftir Ban Ki-moon

0
509
Fyrir rúmri viku hittust leiðtogar iðnríkjanna á árlegum fundi sínum í Heiligendamm í Þýskalandi. Markmið okkar var að ná tímamótasamkomulagi um loftslagsbreytingar. Og okkur tókst það: samkomulag náðist um að minnka útblástur gróðurhúsalofttegund um 50% fyrir árið 2050.

 

 Mér var það sérstök ánægja að samið verður um markmið og leiðir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ég tel að það sé mikilvægt í því skyni að að allir leggist á eitt í þessu átaki.   

Í síðastliðinni viku beindist kastljós alþjóðamála að öðru viðfangsefni. Staðfesta og þolinmæði í diplómatískum umleitunum skiluðu árangri sem á yfirborðinu kann að virðast lítilvægur en kann að verða þungur á metunum í viðleitninni við að bjarga mannslífum. Þessi litli diplómatíski sigur var sá að Omar al-Bashir, forseti Súdans samþykkti loksins áætlun um  sameiginlega friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna og Afríkusambandsins í Súdan. Þetta samkomulag er mér sérstaklega kært því ég hef lýst yfir Darfur sé forgangsmál í mínu starfi og hef í kyrrþey tekið mörg lítil skref í þessa átt. 

Vissulega er margt á huldu. Þetta samkomulag eins og önnur á undan því gæti runnið út í sandinn. Nokkrir mánuðir gætu liðið þar til fyrstu nýju sveitirnar koma á áfangastað og jafnvel enn lengra þangað til tuttugu og þriggja þúsunda manna liðið verður fullskipað. Bardagar munu sennilega halda áfram þangað til-  þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir okkar um vopnahlé. Þetta stríð hefur nú þegar kostað meir en tvö hundruð þúsund mannslíf. Eftir fjögurra ára diplómatískar umleitanir telst það til verulegra tíðinda að slíkur árangur hafi náðst á aðeins fimm mánuðum.

Sumum kann að þykja það liggja í augum uppi að hér séu á ferðinni tvö aðskilin mál. En í raun eru þau tengd. Nánast undantekningalaust er talað um Darfur sem vandamál af hernaðarlegum og pólitískum toga þar sem arabískir vígamenn berjist við svarta uppreisnarmenn og bændur. Ef kafað er til botns í málinu kemur í ljós flóknari mynd. Félagslegar og pólitískar rætur deilunnar í Darfur eru margvíslegar, en það er athyglisvert að vistfræðilegar breytingar sem rekja má að minnsta kosti að hluta til, til loftslagsbreytinga hrundu átökunum af stað. 

Fyrir tveimur áratugum tóku rigningar í suður Súdan að bresta. Samkvæmt gögnum Sameinuðu þjóðanna hefur meðal úrkoma minnkað um fjörutíu af hundraði frá því í byrjun níunda áratugar síðustu aldar. Vísindamenn héldu í fyrstu að þetta væri duttlungum náttúrunnar að kenna. En rannsóknir hafa leitt í ljós í kjölfarið að samhengi var á milli þurrkanna og hlýnunar sjávar í Indlandshafi sem raskað hafa monsúntímanum. Þetta bendir til þess að þurrkana í Afríku sunnan Sahara megi, að vissu marki, rekja til hlýnunar jarðar af mannavöldum. 

Það er engin tilviljun að ofbeldisöldunni í Darfur var hrundið af stað á þurrkatímum. Fram að þeim tíma höfðu arabískir hirðingjar lifað í sátt og samlyndi með bændum sem ræktuðu sitt land. Stephan Faris greinir frá því í nýlegri grein í Atlantic Monthly að svartir bændur hefðu látið sér vel líka að hirðingjar færu um lönd þeirra, settu úfalda sína á beit og nýttu sér brunna. Þegar rigningarnar brugðust, tóku bændur að girða lönd sína af ótta við átroðning hjarðanna. Í fyrsta skipti í manna minnum var ekki lengur nóg að bíta og brenna handa öllum vegna skorts á vatni. Bardagar brutust út. Árið 2003 hófst sá harmleikur sem við þekkjum í dag. En það er mikilvægt að muna eftir því hvernig þetta byrjaði því það er lykillinn að framtíðinni.  

Friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna mun stemma stigu við ofbeldisverkum og greiða fyrir því að mannúðarðstoð komist til skila og þannig bjarga mörgum mannslífum. Engu að síður er það eingöngu fyrsta skrefið, eins og ég lagði áherslu á við félaga mína á leiðtogafundinum í Þýskalandi.
Friður í Darfur verður að byggja á lausnum sem ná til róta vandans. Við getum stuðlað að því að tvær milljónir flóttamanna geti snúið aftur til síns heima. Við getum verndað þorp og aðstoðað við að endurbyggja heimili. En hvað með rót vandans sem er sá að það er ekki lengur nægilegt landrými fyrir alla? 

Pólítískrar lausnar er þörf. Jan Eliasson, sérstakur sendimaður minn í Darfur og  Salim Ahmed Salim, starfsbróðir hans hjá Afríkusambandinu, hafa unnið að vegvísi, þar sem fyrsta skrefið eru pólitískar viðræður á milli leiðtoga uppreisnarmanna og fulltrúa ríkisstjórnarinnar sem munu leiða til formlegra friðarviðræðna til að ljúka deilum á milli norður og suðurhluta landsins. Vonandi verður hafist handa  snemmsumars. 

Þegar upper staðið verður vandi Darfur ekki leystur nema til komi varanleg efnahagsleg þróun. Í hvaða mynd það verður er enn ekki ljóst. En við verðum að snúa okkur að því nú þegar. Ný tækni getur komið að notum, eins og erfðafræðilega breytt korn sem þrífst í þurri jörð eða nýjar aðferðir við áveitur eða geymslu vatns. Það vantar fé til að leggja nýja vegi og fjarskiptabúnað svo ekki sé minnst á heilsugæslu, menntun og hreinlæti. Alþjóðasamfélagið ætti að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að skipuleggja átak í þessum efnum með ríkisstjórn Súdans sem er gestgjafi hinna fjölmörgu alþjóðlegu hjálparsamtaka og óháðra félagasamtaka sem unnið hafa hetjudáðir í Darfur. 

Þetta á ekki eingöngu við um Darfur. Jeffrey Sachs, hagfræðingur við Columbia-háskóla í New York og einn helsti ráðgjafi minn, bendir á að rekja megi vígöldina í Sómalíu til álíka hættulegrar blöndu af óvissu framboði matvæla og vatns. Sama máli gegnir um Cote d´Ívoire  (Fílabeinsströndina) og Burkina Faso.

Slík vandamál munu skjóta upp kollinum víðar í veröldinni og þær lausnir sem við finnum í Darfur geta orðið fyrirmynd annars staðar. Við höfum náð hægum en stöðugum árangri á síðustu vikum og mánuðum. Íbúar Darfur hafa þjáðst of mikið, of lengi. Nú getum við snúið okkur fyrir alvöru að því að ráðast að rótum vandans. 

Ban Ki-moon, er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.