Dauðadómar í Egyptalandi eru “forkastanlegir”

0
550

Egypt

30.apríl 2014. Oddvitar Sameinuðu þjóðanna hafa gagnrýnt harðlega dauðadóma yfir hundruðum Egypta.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri samtakanna og Navi Pillay, mannréttindastjóri hafa gefið út yfirlýsingar þar sem dauðadómar yfir 683 einstaklingum eru harðlega fordæmdir. Dauðadómarnir voru kveðnir upp á mánudag eftir fjöldaréttarhöld sem Sameinuðu þjóðirnar telja að brjóti í bága við alþjóðleg mannréttindalög. 

“Dómarnir uppfylla greinilega ekki lágmarks kröfur um réttarhöld. Líklegt er að þeir grafi undan vonum um langtíma stöðugleika”, segir talsmaður Ban Ki-moon í yfirlýsingu. Framkvæmdastjórinn gerir sér glögga grein fyrir áhrif slíkra dóma á þennan heimshluta, ekki síst hvað öryggi varðar og leggur áherslu á að stöðugleiki í Egyptalandi er þýðingarmikill fyrir alla Norður-Afríku og Mið-Austurlönd. 

“Það er forkastanlegt að í annað skipti á tveimur mánuðum hefur sami dómstóllinn kveðið upp dauðadóma yfir fjölmennum hóp sakborninga eftir málamyndaréttarhöld,” segir Navi Pillay.
“Dómstóllinn hefur skellt skollaeyrum við þrábeiðni alls staðar að úr heiminum um að virða mannréttindaskuldbindingar. Í mars dæmdi sami dómstóll 529 til dauða og nú bætast hundruð við sem bíða sömu örlög. Dómskerfið virðist í sívaxandi mæli troða fótum alþjóðleg viðmið um réttláta málsmeðferð.”

“Það er löngu tímabært að Egyptaland taki skuldbindingar sínar um mannréttindi alvarlega,” bætti Pillay við og bendir á að Egyptaland hefur staðfest Alþljóðasáttmálann um borgaraleg og pólitísk réttindi.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir var 683 sakborningum gefið að sök að hafa drepið lögreglumann og að brjótast inn í lögreglustöð í Al-Minya, 14.ágúst 2013, auk annara sakargifta. Eins og í fyrra dómsmálinu voru sakargiftir hvers einstaklings óljósar, þar sem þær voru ekki lesnar upp í réttinum.

“Sýkn uns sekt er sönnuð er grundvallaratriði í vernd mannréttinda í sakamálum,” sagði Pillay. “Sú skylda hvílir á saksókn að sanna sekt hvers sakbornings og það þýðir að hann telst sýkn saka uns sakarefnin gegn honum eða henni hafa verið sönnuð og öllum efasemdum eytt.”

“Í stað þess að kveða upp dauðadóma yfir hóp, ber réttinum að tryggja að einstaklingar njóti sanngjarnrar málsmeðferðar,þar á meðal að njóta vafa,” sagði Pillay.
Af þeim 529 sem fengu dauðadóm í lok mars fyrir að drepa lögregluþjón, var dómur yfir 37 staðfestur en dómar annara voru mildaðir og fengu þeir 25 ára dóma og háa sekt.

Mynd: IRIN News