Finnskir Samar óska eftir aðstoð Sameinuðu þjóðanna

0
458
indigenous

indigenous
29.apríl 2015. Finnskir Samar hafa óskað eftir aðstoð Sameinuðu þjóðanna til að þvinga finnsk stjörnvöld til að virða réttindi frumbyggja í Finnlandi.

Tiina Sanila-Aikio, leiðtogi finnska Sama-þingsins sagði í ræðu í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York að finnska ríkið hefði „rænt Sama réttinum til að skilgreina sjálfa sig” með því að undirrita ekki sáttmála sem tryggi réttindi frumbyggja.

Sanila-Aikio sagði í ræðu á þingi Sameinuðu þjóðanna um málefni frumbyggja, að finnska stjórnin hefði „gefið innantóm loforð” en hún frestaði því í mars að staðfesta Sáttmála Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um málefni Frumbyggja og ættbálka, þar til ný ríkisstjórn hefði tekið við völdum.

Sanila-Aikio sagðist „gríðarlega vonsvikin” yfir að sáttmálinn frá 1989 hefði enn ekki verið undirritaður og sagði: „Ástandið er síst betra nú eftir kosningarnar því háværustu andstæðingar ILO sáttmálans eru einmitt þeir sem nú setjast í stjórn.”

Anna-Maja Henriksson, fráfarandi dómsmálaráðherra sagðist harma að ekki hefði unnist tími til að staðfesta sáttmálans á síðustu vikum þingsins fyrir kosningar. Hins vegar hafði Henriksson áður lýst yfir að Finnar hefðu nú þegar lög sem nægðu til að tryggja réttindi Sama.
Sanila-Aikio bað Sameinuðu þjóðirnar og aðrar alþjóðlegar stofnanir um að setja þrýsting á finnsk stjórnvöld til að ganga frá málinu.

Victoria Tauli-Corpuz, sérstakur erindreki SÞ um mál frumbyggja sagði, eftir að hafa hlýtt á orð Sama-leiðtogans: „Það er mikið áhyggjuefni að heyra um aðstæður Sama í Finnlandi og ég vona að umræður um þetta mál haldi áfram.”

Janne Talaas, fulltrúi Finna hjá Sameinuðu þjóðunum sagði að að hann hefði hlýtt með athygli á gagnrýni Sanila-Aikio.

„Það er einstaklega mikilvægt að allar raddir heyrist hér og vað við ræðum þessi mál í hreinskilni. Til þess er þetta þing um málefni frumbyggja.”

Sáttmáli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hefur verið staðfestur af 22 ríkjum sem mörg hver státa af frumbyggjum á meðal íbúa, svo sem Noregur, Spánn og mörg Suður-Ameríkuríki.

Heimild: YLE (Finnska ríkisútvarpið).