Margaretha Walhström, Norðurlandabúi mánaðarins

0
498

Wahlström Tsunami

 

Apríl 2013. Það eru ekki margir Norðurlandabúar sem hafa jafn mikla reynslu af mannúðarstörfum á hamfara- og átakasvæðum og Norðurlandabúi mánaðarins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að þessu sinni.

Í ársbyrjun 2005 var Margaretha Wahlström frá Svíþjóð stödd á vettvangi í Asíu að bregðast við afleiðingum flóðbylgjunnar mannskæðu sem reið yfir löndin í kringum Indlandshaf. Á sama tíma var verið að ganga frá í Japan svokallaðri Hyogo rammaáætlun um aðgerðir til að sporna við eyðileggingu af völdum hamfara.

Rúmum þremur árum síðar eða í nóvember 2008 skipaði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hana í embætti sérstaks erindreka til að minnka áhættu af völdum hamfara. Þar með hvíldi á hennar herðum að hrinda Hyogo rammaáætluninni í framkvæmd.

 “Ég get fullyrt, þó ég hafi ekki verið á fundunum í Kobe,  því ég var í Aceh í Indónesíu, að flóðbylgjan skapaði algjörlega nýtt pólitískt umhverfi og þessir hræðilegu atburðir gáfu okkur styrk sem við höfum getað fært okkur í nyt því þetta skerpti sýn margra landa á málefnið.”

En hvernig stóð á því að hún hóf störf fyrir Sameinuðu þjóðirnar?

Wahl with Ban”Ég fetaði inn á þessa braut þegar ég fór að vinna fyrir einkageirann við sænskt þróunarverkefni í Víetnam eftir stríðið árið 1979. Eftir fall Rauðu Kmeranna í Kamobdíu og hörmungarnar þar, var komið á fót stóru verkefni af hálfu Sameinuðu þjóðanna og þar fékk ég starf og vann þar í mörg ár. Þar komst ég svo í kynni við Rauða krossinn og var boðið starf. Það sem ég sá í Kambodíu hafði mikil áhrif á mig og mig langaði til að vinna fyrir Rauða krossinn.

Þar var ég svo í 15 ár en þá ákvað ég að ég vildi vinna fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Fyrsta starf mitt hjá þeim eftir dvölina hjá Rauða krossinum var í Afganistan eftir fall Talíbananna. Á þessum tíma stóð hver einasti karl og kon með Afganistan í von um frið og þróun. Þannig atvikaðist þetta. Í mínum huga skiptir alþjóðlega samstarfið mestu. Sameinuðu þjóðirnar eru tæki einstakra landa til að vinna saman.

Þetta á ekki síst við núverandi starf mitt. Við erum lítil skrifstofa og okkar starf getur einungis borið árangur með samstarfi við ríki og samtök. Samstarf ólíkra aðila hefur verið rauði þráðurinn hjá mér síðan ég var hjá Rauða krossinum.

Það er við margan vanda að glíma í heiminum, en velferð hefur líka vaxið ótrúlega mikið. Við verðum að horfa á það sem við eigum sameiginlegt. Náttúrhamfarir, til dæmis, virða engin landamæri. Afleiðingarnar snerta okkur öll.”

Hvað hefur verið mesta áskorunin á ferlinum hingað til?

”Að mörgu leyti þau viðfangsefni sem við erum að glíma við nú. Náttúruhamfarir fá miklu meiri athygli og fé en viðleitnin til að hindra að þær valdi skaða. Margir sýna þessu þó mikinn áhuga en stundum finnst mér ég vera í ómögulegasta starfi í heimi því það er eiginlega enga pólitíska forystu að hafa, engan drifkraft og því snýst starfið að miklu leyti um að klifa á sömu skilaboðum, reka menn áfram, vera sjálfum okkur samkvæm og sýna fram á að hlutirnir séu framkvæmanlegir. Það er mikilvægt að vekja athygli á því sem vel er gert og jafnframt sýna fram á samhengi hlutanna.

Stjórnmálaleiðtogar geta sýnt sig í góðu ljósi ef þeim tekst að hindra að hamfarir valdi skaða. Ríkisstjóri á Filippseyjum, til dæmis, leggur  tíu prósent af því fé sem fer til fjárfestinga til hliðar í því skyni að byggja upp varnir gegn felliblyljum. Hann telur tómt mál að tala um þróun eða menntun ef engar varnir eru gegn þeim tveimur til þremur fellibyljum geta riðið yfir á hverju ári og kostað samfélagið andvirði milljarða dala. Margir hafa fylgt fordæmi hans. Þetta er nefnilega grunnurinn að efnahagslegri þróun.”

Telur þú að Norðurlöndin hafi eitthvað sérstakt fram að færa á þínu sviði?

”Norðurlöndin voru hér í eina tíð mjög áhrifamikil í stjórnmálum og fjárfestingum en við gátum líka boðið upp á ákveðið þróunarmódel sem enn er vitnað til, en ég er ekki viss um að við höfum sömu vikt og við höfðum áður.”