Flóttamenn: Alþjóðleg áhrif ESB í veði

0
423
Guerres Press Conference 09 2015 2

Guerres Press Conference 09 2015 2

15.september 2015. Forstjóri Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna segir að Evrópusambandinu sé nauðugur einn kostur að taka á núverandi flóttamannavanda, ellegar hætti það að skipta máli á alþjóðlegum vettvangi.

Flóttamannastjórinn, António Guterres sagði á blaðamannafundi í Brussel: „Ögurstund Evrópusambandsins er runnin upp. Annað hvort grípur það til aðgerða eða hættir að skipta máli í alþjóðamálum.”

Guterres bar saman ástandið nú við afleiðingar íhlutunar Sovétríkjanna í Ungverjalandi árið 1956, en þá flúðu 200 þúsund Ungverjar land.

„Þegar upp var staðið hafði 180 þúsund þeirra sem flýðu til nágrannaríkjanna Austurríkis og Júgóslavíu, verið deilt niður á 37 mismunandi ríki. Fyrstu 100 þúsund Ungverjarnir voru komnir á áfangastað á fyrstu 10 vikunum,” benti Guterres á. „Því miður hefur Evrópusambandið náð slíkum árangri, og mér þykir það miður,” bætti hann við og vísaði til árangurslauss fundar innanríkisráðherra Evrópusambandsins í gær.

Guterres gagnrýndi að landamæraeftirlit skuli hafa verið tekið upp innan Schengen af hálfu nokkura ríkja og sagði þetta „valda Flóttamannahjálpinni vandræðum“.

Flóttamannastjórinn benti á að ástæðan fyrir stórauknum fjölda sýrlenskra flóttamanna væri sú að vonir almennra borgara fari þverrandi og að aðstoð við flóttafólk í nágrannaríkjum Sýrlands hafi verið skorin verulega niður vegna fjárskorts. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hefur þannig orðið að skera niður aðstoð sína um 40%.

„Ef vel ætti að vera, væri við lýði sameiginlega flóttamannastefna Evrópusambandsins og flóttamenn færu frjálsir ferða sinna innan Evrópu, en því er ekki að heilsa,“ sagði Guterres og hvatti til þess að flóttafólk gæti ferðast löglega og komist í heila höfn í Evrópu án þess að hætta lífi sínu.

Án löglegra leiða hefði fólk sem ætti rétt á alþjóðlegri vernd, engan annan kost en að leita á náðir smyglara og leggja á sig lífshættulegar ferðir.

Guterres fagnaði framkomnum áætlunum um að flytja 160 þúsund flóttamenn frá Grikklandi, Ítalíu og Ungverjalandi, en hann bætti við að semja þyrfti áætlun B því búast mætti við að fjöldinn muni reynast mun meiri innan skamms.

Langflestir þeirra sem koma til Grikklands koma frá átakasvæðum, á borð við Sýrland, Írak og Afganistan og 83% þeirra sem farið hafa um Balkanskaga að undanförnu eru flóttamenn frá Sýrlandi.