Framboð íslands rætt í Svíþjóð

0
437

 Félag Sameinuðu þjóðanna í Svíþjóð og upplýsingaskrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Stokkhólmi efna til hádegisverðarfundar 1. október undir yfirskriftinni “Norðurlönd sækjast eftir auknu hlutverki í Sameinuðu þjóðunum,” og verður sjónum beint að framboði Íslands til öryggisráðs samtakanna.
Árni Páll Árnason, varaformaður utandríkismálanefndar Alþingis segir frá fyrirætlunum Íslands í öryggisráðinu.

 

 Jan Eliasson, fyrrverandi forseti Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna tekur þátt í pallborðsumræðum um Norðurlönd og SÞ.

Því næst taka þátt í pallborðsumræðum um samvinnu Norðurlanda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna auk Árna Páls, Jan Eliasson, fyrrverandi forseti Allsherjarþingsins, utanríkisráðherra Svía og núverandi sendimaður SÞ í Darfur og Carl-Einar Stålvant, lektor við Försvarshögskolan en Aleksander Gabelic, formaður félags SÞ í Svíþjóð styrir umræðum.

Í tilkynningu félags Sameinuðu þjóðanna í Svíþjóð segir að Norðurlönd hafi öll með tölu stutt framboð Íslands til öryggisráðsins. Ísland segist ætla að leggja áherslu á að verja óbreytta borgara í stríðsátökum,tryggja þátttöku kvenna í friðaruppbyggingu að loknum átökum, sporna gegn ógn sem steðjar að öryggi, vinna gegn loftslagsbreytingum og vinna að afvopnun og gegn útbreiðslu kjarnorkuvopna. 

Er haft eftir Carli Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar að rödd Norðurlanda muni heyrast hátt og snjallt nái Ísland kjöri til öryggisráðsins.

Kosning til öryggisráðsins fer fram á Allsherjarþinginu 16. október.

Fundurinn í Stokkhólmi er haldinn í Studio 3, Kulturhuset plan 3,  við Sergels torg og hefst klukkan tólf.
Nánari upplýsingar:
Sofie Trosell, Norden i Fokus – Nordiska ministerrådets informationskontor
Sími 00 46 (0)8-506 113 19, og  00 46 (0)708-298 559
([email protected])