„Getum ekki beðið til 2095″ segir Lilja

0
452
LA a 1325 radstefnu

LA a 1325 radstefnu

14. apríl 2016. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra stefnir að því að kynna nýja landsáætlun 2017-2020 um framkvæmd ályktunar Sameinuðu þjóðanna 1325 um konur, frið og öryggi á næstu mánuðum.

Ráðherra tilkynnti þetta síðdegis í dag þegar hún opnaði tveggja daga alþjóðlega ráðstefnu í Þjóðminjasafni Reykjavíkur um ályktunina  og innleiðingu hennar á átakasvæðum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu, þar segir jafnframt að um afar metnaðarfulla áætlun sé að ræða. 

„Tilgangur ráðstefnunnar er að meta árangurinn af ályktun 1325 og þær hindranir sem enn standa í vegi fyrir framkvæmd hennar, rúmum fimmtán árum eftir að hún var samþykkt í öryggisráði SÞ. Lilja sagði í opnunarávarpinu að jafnréttisbaráttan væri jafn mikilvæg og fyrr. Tölurnar töluðu sínu máli; eftir því sem konum fjölgaði í friðarumleitunum og í áhrifastöðum á opinberum vettvangi, drægi úr líkunum á átökum og ofbeldi.

„Við verðum að halda áfram að koma þessum skilboðum á framfæri, dropinn holar steininn. En SÞ segja okkur að með þessu áframhaldi verði jafnrétti ekki náð fyrr en árið 2095 og það er einfaldlega óásættanlegt. Við getum ekki beðið svo lengi,“ sagði Lilja. Hún sagði að utanríkisráðuneytið hefði um árabil lagt áherslu á að brýna friðargæsluliða í jafnréttismálum og stefnt væri að því að slík þjálfun næði til allra starfsmanna ráðuneytisins.

Áfram yrði haldið að virkja karla í jafnréttisbaráttunni á svokölluðum Rakarastofuráðstefnum en tvær slíkar hafa þegar verið haldnar á árinu. Þá héldi áfram vinna við Norrænt net kvenna í friðarumleitunum sem var  stofnað í lok síðasta árs en það tengir konur með reynslu af samningaumleitunum og störfum á átakasvæðum,“ segir í tilkynningu.

Að ráðstefnunni standa Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST) ásamt rannsóknasetrinu EDDU við Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytinu. (Fréttatilkynning frá Utanríkisráðuneytinu).