A-Ö Efnisyfirlit

Goðsögur, jöklar og þrumuguðinn Þór

Loftslagsmál hafa á mjög skömmum tíma orði eitt helsta viðfangsefni pólitískrar umræðu á Íslandi, eftir að hafa staðið um árabil í skugganum af harðvitugum deilum um virkjanir og vernd hálendisins.

Fyrir rúmun áratug voru haldnir fjölsóttustu útitónleikar á Íslandi þegar tugir þúsunda lögðu leið sína í Laugardalinn til að hlýða á Sigur Rós og Björk og ákall um vernd hálendisins.

En þótt loftslagsmál væru í brennidepli á þessum tíma í aðdraganda Kaupmannahafnarfundarins um loftslagsmál voru þau síður á umræðu á Íslandi en almennt á alþjóðlegum vettvangi.

Öðru máli gegnir í dag og má segja að þar komi til „Grétu-áhrifin.” Björk, einn frumkvöðla Náttúrutónleikanna birtir eigið ákall í loftslagsmálum og spilar ávarp Grétu Thunberg af myndbandi á risaskjá í lok hverra tónleika á tónleikaferð sinn haustið 2019.

Einn þeirra sem lagði hönd á plóg við Náttúrutónleikana, Andri Snær Magnasson, hefur verið í fararbroddi í umhverfisverndarumræðu á Íslandi undanfarin ár. Loftslagsmálin eru í brennidepli í nýjustu bók Andra Snæs og sýningum sem hann hefur haldið um allt land, þar sem talað orð, myndir og tónlist eru tvinnuð saman.

Andri Snær segir í viðtali við Norræna fréttabréf UNRIC að hann hafi komið inn í umhverfismálin á hefðbundnum nótum og tekið þátt í baráttunni um að vernda óspillt víðerni. Honum hafi lengi fundist hann ekki hafa nægilega djúpan skilning eða erindi til að tala um loftslagsmál og talið að það bæri að eftirláta það vísndamönnum.

„Siðan hitti ég vísindamann sem sagið mér hreinlega, að það væri skylda mín sem rithöfundar sem væri uppi hér og nú og hefði hæfileika til að segja sögur, að segja sögur af loftslagsbreytingum.  Ég var efins og bar því við að ég gæti ekki byggt á eigin rannsóknum og yrði að treysta á rannsóknir annara; rannsóknir sem ég yrði að treysta á í blindni en kynni að vera kollvarpað að ári.“

Andri Snær segir að í fyrstu hafi hann verið auðvelt að slá hann út af laginu, hvort heldur sem það var verkfræðingur í frændgarði sem talaði af festu og sannfæringu eða myndband á Youtube sem sáði fræjum efasemda.

„Síðan þegar ég fór að skoða þetta betur og staðreyndirnar blöstu við, þyrmdi yfir mann; súrnun hafsins, bráðnun jöklanna og hin hraða hækkun hitastigsins á jörðinni. Síðan þegar ég fór að útskýra þetta fyrir sjálfum mér, þá komst ég að því að ég gat líka útskýrt þetta fyrir öðrum. En ég á líka sérstaka fjölskyldusögu sem tengist þessu beint. Þannig voru amma og afi félagar í jöklarannsóknafélaginu.”

Þetta varð til þess að í stað línulegrar blaðamannabókar  varð það ofan á hjá Andra Snæ að bæta inn í slíka frásögn “ástinni á heiminum sem er ástæðan fyrir að við viljum bjarga honnum.”

Útkoman var bókin Um tímann og vatnið þar sem samdráttur afa hans og ömmu uppi á jöklum, viðtöl við Dalai Lama og afinn sem skar upp Íranskeisara og Andy Warhol koma við sögu, auk indverskra goðsagna og staðreynda um loftslagsmál.

Að ógleymdri heimspeki.

„Þá fór ég að hugsa um tímann líka hvað við erum illa tengd við tíma, og ekki síður um orð á borð við kjarnorkusprengju. Skilningur okkar á orðinu kjarnorskusprengja breyttist í grundvallaratriðum eftir því hvort það var á meðan hún var bara hugmynd eða eftir að hún tortímdi hundruð þúsunda manna og okkur varð ljóst að hún gæti eytt öllu lífi á jörðinni. Sama er um loftslagsbreytingar – við erum ennþá á því stigi að hugsa um hana sem kjarnokusprengju áður en hún var sprengd.”

Rétt eins og hugtakið kjarnorkusprengja hafði aðra merkingu annars vegar áður og hins vegar eftir að hún varð það tortímingarafl sem raun bera vitni, eru loftslagbreytingar enn hugtak sem fela ekki í sér afleiðingarnar, að mati Andra Snæs.

„Orðið ber ekki í sér afleiðingarnar enn,” útskýrir Andri Snær. “Þú getur gert grín að því, látið þér fátt um finnast, eða látið sem það þýði ekki neitt.”

Hann bendir á að þegar öllu sé á botninn hvolft sé þessi umræða ný af nálinni, og því séum við enn að fóta okkur í umræðunni. Þannig hafi súrnun sjávar ekki sést á prenti fyrr en fyrir tíu árum eða svo.

„En ég tek þessari áskorun mjög alvarlega og hef verið að hugsa um þessi mál í áratug en það tók mig langan tíma að finna nálgun sem hreyfir við fólki. Hún er sú að taka óskilda hluti og snúa þeim inn í vísindin, til dæmis goðafræði. Það er í raun ekkert nýtt því að Oppenheimer vísaði í Bhagavata þegar kjarnorkusprengjan var í fæðingu – goðafræði hefur alltaf verið fylgifiskur þekkingar.  Með því að nota þessar aðferðir nánast plata ég fólk til að kynna sér þessi fræði.”

Sú spurning vaknar óneitanlega hvort umhverfisverndarsinnar hafi verið svo uppteknir við hálendið og virkjanamálin að það hafi verið lengst af á kostnað loftslagsmála. Að ekki sé minnst að sú raforka sem beisla á með virkjunum telst hrein og umhverfisvæn.

„Í fullkomnum heimi þar sem öllu áli væri forgangsraðað og orkan færi í að framleiða sólarrafhlöður væri þetta kannski þversögn, en núna er álið bara enn ein neysluvara. Því miður hefur baráttan gegn plastnotkun orðið til þess að auka notkum á áldósum í staðinn.   Í Ameríku henda menn dósum sem gætu dugað til að endurnýja allan flugflotann 4 sinnum á ári. Okkar stóriðja er 20.aldar fyrirbæri sem snýst um að auka neyslu og sóun okkar. Og gleymum því heldur ekki að í virkjanaframkvæmdum fyrir austan var sökkt 50 ferkílómetra gróðurlendi. Hvað skyldi það binda mikinn koltvísýring á ári?”

Andri Snær verður að minnsta kosti ekki sakaður um að slá slöku við þessa dagana í loftslagsmálunum því auk bókarinnar Um tímann og vatnið hefur hann staðið fyrir samnefndri sýningu í Borgarleikhúsinu og víðar þar sem hann segir frá, sýnir myndir og nýtur stuðnings tónlistarmannsins Högna Egilssonar sem er kunnur úr hljómsveitunum Hjaltalín og Gus Gus.

„Ég hef heimild sem rithöfundur til að taka óskildar upplýsingar og búa til heild úr þeim. Ég komst sérstaklega að því í gegnum virkjunarmálin á Íslandi að sundurleitar fréttir hafa upplýsingagildi en til að taka heildarmyndina saman, þá dugar eiginlega ekkert minna en bók.  300 blaðsíður er það form sem gerir þér kleift að fara í gegnum einhvern hugsanaboga þar sem þú skapar heim og tungumál innan verksins til að keyra inn nýjan hugbúnað í lesandann. Bókin er eiginlega eini miðillinn sem gerir það.”

Andri Snær bauð sig fram til forseta Íslands 2016 og varð í þriðja sæti helstu frambjóðenda, fékk 14.3% atkvæða og skaut Davíð Oddssyni fyrrverandi forsætisráðherra aftur fyrir sig.

Hann segir að við lifum í raun einstaka tíma þar sem allt sé undir, jafnvel áframhald lífs á jörðunni.

„Menn hafa ekki gefið því gaum en þegar men hittast á fundum hjá Sameinuðu þjóðunum þá eru þeir að tala um að hafa áhrif á veðrið. Þetta er í raun goðsöguleg staða og alveg ný. Menn hittust ekki á alþjóðavettvangi árið 1920 um hvernig þeir ætluðu að breyta verðurfari. Og Genghis Khan talaði ekkert um það heldur.”

„Núna kjósum við fólk á þing sem er í stöðu veðurguðanna og getur tekið áhrif um hvernig hitastig jarðar verður eftir 100 ár. Það er ekkert víst að fólk átti sig á því hvað sérstakri stöðu það er – eiginlega fráleitri.”

En þótt fólkið sem tekur ákvarðanirnar hjá Sameinuðu þjóðunum átti sig kannski ekki á goðsögulegri stöðu sinni kann það að hjálpa að helstu ákvarðanir alheimssamtakanna eru teknar með því að berja fundarhamri allsherjarþingsins í ræðupúlt. Og það vill svo til að fundarhamarinn sem Íslendingar gáfu samtökunum ber viðeigandi nafn því innan samtakanna er hann ævinlega kenndur við Thor Thors sendiherra Íslands.

Því er það hamar þrumuguðsins Þórs sem innsiglar ákvarðanir sem kunna að hafa áhrif á veðrið næstu árhundruðin og kannski framtíð jarðar.

Fréttir

Allsherjarþingið á netið

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fer í fyrsta skipti fram með myndbandstækni, þjoðarleiðtogar hittast ekki í New York.

Úr fangelsi í Sýrlandi til Hvíta hússins   

Omar Alshogre mátti þola þriggja ára barsmíðar, hungur og þorsta í fangelsi í Sýrlandi. Hann sætti pyntingum, bæði andlegum sem líkamlegum. Hann var á köflum sannfærður um að hann myndi ekki lifa fangavistina af, en það gerði hann engu að síður. Nú býr hann í Stokkhólmi og helgar líf sitt baráttu í þágu landa sinna sem enn eiga undir högg að sækja í heimalandinu.

Baráttan gegn heimsfaraldri ójöfnuðar: Nýr samfélagssáttmáli í þágu nýrra...

Ójöfnuður í heiminum grefur undan velferð okkar og framtíð. Birtingarmyndir ójöfnuðar eru víðs vegar, hvort heldur sem er í beitingu valds á alþjóðavettvangi til kynþáttahyggju og mismununar kynjanna til ójafnrar tekjuskiptingar. Við þurfum átakanlega á nýrri hugsun að halda til að stöðva þessa þróun og snúa henni við.   

COVID-19 bitnar harðast á konum

Ógnvekjandi fyrirsagnir um aukið kynbundið ofbeldi vegna COVID-19 hafa sést um allan heim, en það er aðeins eitt dæmi um að stúlkur og konur hafa orðið hlutfallslega harðast úti í faraldrinum

Álit framkvæmdastjóra