Guterres óskar eftir viðræðum í Moskvu og Kyiv

0
467
Eyðilegging eftir átök í Mariupol
Eyðilegging eftir átök í Mariupol © UNICEF/Evegeniy Maloletka

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur skrifað leiðtogum Rússlands og Úkraínu bréf þar sem hann fer fram á viðræður í höfuðborgum ríkjanna.

 Talsmaður hans, Stéphane Dujarric, sagði að Guterres hafi óskað eftir því að ræða við Vladimir Putin Rússlandsforseta í Moskvu og Volodymyr Zelenskyy forseta Úkraínu í Kyiv.

„Aðalframkvæmdastjórinn segir að hann vilji ræða um brýnar aðgerðir til að koma á friði í Úkraínu á þessum válegu og afdrifaríku tímum. Jafnframt um framtíð milliríkjasamskipta sem byggja stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlögum,“ sagði Dujarric.

Ákall um vopnahlé

António Guterres.
António Guterres. Mynd:
UN Photo/Eskinder Debebe

Tilkynningin kom í kjölfar ákalls aðalframkvæmdastjórans um vopnahlé í mannúðarskyni yfir páska Réttrúnaðarkirkjunnar sem eru um næstu helgi. Fjögurra daga hlé yrði notað til þess að flytja þá óbreytta borgara, sem þess óska, frá átakasvæðum. Einnig til að koma   neyðaraðstoð til þeirra svæða sem harðast hafa orðið í átökum undanfarið, eins og Mariupol, Kherson, Donetsk og Luhansk.

Amin Awad samræmingarstjóri Sameinuðu þjóðanna fyrir Úkraínu segir ástandið mjög alvarlegt.

„Þessa viku skarast helgidagar þriggja trúarbragða, þegar páska kristinna réttrúnaðarmanna og gyðinga og föstumánuð múslima ber upp á sama tíma,“ sagði Awad. „Nú er tími til að einbeita okkur að sameiginlegum hagsmunum og setja ágreining til hliðar.“

Innrás Rússa í Úkraínu hefur valdið verðhækkunum sem koma einkum hart niður á þróunarríkjum.