Sameinuðu þjóðirnar hvetja til vopnahlés um helgidaga

0
448
António Guterres ræðir við blaðamenn fyrir utan höfuðstöðvar SÞ í New York.
António Guterres ræðir við blaðamenn fyrir utan höfuðstöðvar SÞ í New York.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt Rússland og Úkraínu til að fallast á vopnahlé í mannúðarskyni yfir páskahelgi Réttrúnaðarkirkjunnar.

“Ég hvet til fjögurra daga mannúðar-vopnahlés yfir helgidagana frá fimmtudegi til páskadags til þess að hægt sé að opna leiðir til að koma aðstoð til skila,” segir Guterres.

 António Guterres.
António Guterres. Mynd:
UN Photo/Eskinder Debebe

Markmiðin eru þau að leyfa öllum óbreyttum borgurum, sem það vilja, að flýja núverandi og líkleg átakasvæði í samvinnu við Alþjóðaráð Rauða krossins.

Auk þess yrði ráðrúmið notað til að koma lífsnauðsynlegri aðstoð til þeirra staða þar sem harðast hefur verið barist, til dæmis Mariupol, Kherson, Donetsk og Luhansk.

“Sameinuðu þjóðirnar eru reiðubúnir að senda bílalestir með hjálpargögn til þessara staða,” segir Guterres. “Fólk skortir mat, vatn og hjálpargögn til að hjúkra sjúkum og slösuðum og allt sem til þarf að lifa venjulegu lífi.“

Fjórði hver á flótta

Meir en 12 milljónir manna þurfa á mannúðaraðstoð að halda í Úkraínu, þar af býr þriðjungur  í Mariupol, Kherson, Donetsk og Luhansk.

Búist er við að þess tala hækki í 15.7 milljónir innan skamms en það er 40% þeirra Úkraínubúa sem enn eru í landinu.

Nú þegar hefur tekist að koma aðstoð til 2.5 milljóna manna á undanförnum sjö vikum.

Fjórði hver Úkraínumaður hefur flúið heimili sitt eða 12 milljónir manna. Er það skjótasti landflótti af slíku tagi frá dögum Síðari heimsstyrjaldarinnar. Af þeim hafa 4.9 flúið til nágrannaríkjanna og 7.1 milljón hefur lent á vergangi innan landamæra ríkisins. Þá hafa 210 þúsund borgara annara ríkja flúið til nágrannaríkja.

Þrettán hundruð starfsmenn Sameinuðu þjóðanna eru nú í Úkraínu í 8 miðstöðvum.

Sameinuðu þjóðirnar telja að fjárþörf vegna aðstoðar við Úkraínubúa fyrir næstu þrjá mánuði nemi 1.1 milljarði Bandaríkjadala og hefur tekist að afla 68% þess fjár.