Guterres: „Sigurvegarinn er trúverðugleiki SÞ“

0
518
Guterres elected1

Guterres elected1
14.október 2016. António Guterres, nýkjörinn aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði í gær að gagnsætt og opið ferli við að velja æðsta yfirmann samtakanna hafi styrkt samtökin.

Guterres var kjörinn aðalframkvæmdastjóri með lófataki á Allsherjarþinginu í gær að tillögu Öryggisráðsins. Hann tekur við af Ban Ki-moon sem lætur af embætti um áramót.

„Ég tel að nýja ferlið feli í sér að hinn sanni sigurvegari í dag er trúverðugleiki Sameinuðu þjóðana. Og það er mér ljóst að ég verð, sem aðalframkvæmdastjóri sem er valinn af öllum aðildarríkjum, að þjóna þeim öllum jafnt og hafa ekkert annað að leiðarljósi en þau gildi sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Guterres í ræðu sinni eftir að kjöri hans var lýst.

António Guterres er 67 ára gamal. Hann var forsætisráðherra Portúgals frá 1995-2002 og forstjóri Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna frá júní 2005 til desember 2015. Fimm ára kjörtímabil hans hefst 1.janúar 2017.

Allsherjarþingið fagnaði einnig í ályktun því sögulega nýja ferli sem aðildarríkin ýttu úr vör á síðasta ári. Áður hefur val aðalframkvæmdastjórans farið fram á bakvið luktar dyr með þátttökku fárra valdamikilla ríkja, en að þessu sinni hafa framjóðendur tekið þátt í umræðum og svarað spurningum opinberlega.

Í kosningabaráttunni sagði Guterres meðal annars: „Við skulum hafa eitt á hreinu. Það eru of margir fundir, sem of margir sækja um of mörg málefni þar sem of fáar ákvarðanir eru teknar. Ég tel að við þurfum að taka upp ný vinnubrögð, skerpa sýnina á verkefnin á árangursmiðaðan hátt.”

Sjá nánar um Guterres starf hans og sjónarmið í máli og myndum hér.

Mynd: Nýkjörinn aðalframkvæmdastjóri ávarpar Allsherjarþingið.

  UN Photo/Amanda Voisard