Hætta á hungursneyð i Mið-Afríku

0
472

CAR hunger

13.júní 2014. Ekki hefur tekist að safna nema tíunda hluta af því fé sem þarf til að fæða flóttamenn frá Mið-Afríkulýðveldinu. Mikill matarskortur er í landinu og óttast sérfræðingar að hungursneyð blasi við. Matarbirgðir eru á þrotum.

Elisabeth Byrs, talskona Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) segir að beðið hafi verið um 15 milljóna dollara framlag til að sinna brýnustu þörfum flóttamanna vegna óaldarinnar í Mið-Afríkulýðveldinu en aðeins hefur tekist að afla tíunda hluta þessa fjár. Hálf milljón manna er á vergangi innan landamæra landsins og 120 þúsund hafa flúið til nágrannaríkja.
„Við reynum að sinna brýnustu þörfum fólksins og reynum að gera áætlanir fyrir regntímabilið en þá skapast kjöraðstæður fyrir útrbreiðslu sjúkdóma og erfitt er að flytja birgðir á landi,“ segir Byrs.
Sérfræðingar segja að nánast allir landsmenn hafi brýna þörf fyrir matvælaaðstoð.

„Ég fór til höfuðborgarinnar Bangui vegna starfs míns sem aðalhagfræðingur WFP og varð djúpt snortinn þegar ég sá með eigin augum hvernig skammöldin sem ríkir í landinu hefur eyðilagt efnahagslífið, sérsakleag matvælaframleiðsluna. Það er hrikalegt hversu djúp áhrif þetta hefur haft á fólk almennt. Þetta verður ekki mikið verra en það er hér,“ sagði Arif Husain, hjá WFP.
Landbúnaðurinn sem er hryggjarstykkið í efnahagslífinu hefur lagst á hliðina. Árið 2013 minnkaði matvælaframleiðslan um þriðjung, kornuppskera um helming og búpening fækkaði um helming.

Atvinnuleysi fer stigvaxandi. Fjölskyldur skuldsetja sig til að lifa af, borða minna og selja eigur sína.

„Ef öryggisástandið batnar ekki má búast við að enn verri uppskeru í ár miðað við síðasta ár. Þar að auki hafa margir bændur ekki lengur útsæði, fræ , mannskap tæki og tól og sáningartíminn er hafinn,“ segir Husain.
„Við verðum að auka aðstoðina og gera miklu meira núna,“ bætir hann við. „Fyrir hvern dag sem líður, verður erfiðara að veita neyðarhjálp, hún verður dýrari og kostar líf enn fleiri saklausra einstaklinga.“