Heimurinn er að breytast Sameinuðu þjóðunum í vil

0
427
Ávarp á degi Sameinuðu þjóðanna 

eftir Ban Ki-moon

24. október 2007
Heimurinn er að breytast Sameinuðu þjóðunum í vil eftir því sem sífellt fleira fólk og ríkisstjórnir gera sér ljóst að leið fjölþjóða samskipta er eina greiða leiðin í innbyrðis tengdum, hnattvæddum heimi. Hnattræn vandamál kalla á hnattrænar lausnir og það er ekki raunhæfur kostur að vera einn á ferð. Kröfurnar til samtaka okkar aukast dag frá degi hvort heldur sem er þegar um er að ræða frið og öryggi, þróun eða mannréttindi.   
 Ég er staðráðinn í því að tryggja að við náum árangri í brýnustu málum sem koma til okkar kasta, skref fyrir skref og bæta ofan á það sem áunnist hefur í samstarfi við aðildarríkin og borgaralegt samfélag. Í þessu skyni þarf að efla Sameinuðu þjóðirnar til þess að þær geti unnið af fullum krafti að því að hindra átök, koma á friði, miðla málum, sinna friðargæslu og uppbyggingu að átökum loknum. Og þetta krefst þess að við blásum nýju lífi í viðleitni okkar í afvopnunarmálum og takmörkunum á útbreiðslu kjarnorkuvopna.   
Við þurfum á sama tíma að tvíefla viðleitni okkar til að ná Þúsaldarmarkmiðunum um þróun, sérstaklega í Afríku. Ég mun reyna að efla pólitískan vilja og minna leiðtoga á skuldbindingar þeirra um þróunaraðstoð, viðskipti og eftirgjöf skulda. 
Og ég mun halda áfram að gera mitt ítrasta til að örfa aðgerðir á hnattræna vísu gegn loftslagsbreytingum. Sameinuðu þjóðirnar eru heppilegur vettvangur til að ná fram samstöðu í þessu aðkallandi vandamáli eins og við sáum á leiðtogafundinum í tengslum við Allsherjarþingið fyrir mánuði. Hinir fjölmörgu leiðtogar sem sóttu fundinn sendu skýr skilaboð til samningaviðræðnanna sem hefjast í desember á Bali undir merkjum Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál: það er ekki lengur hægt að láta sem ekkert sé og iðnríki og þróunarríki verða að taka höndum saman til að tryggja árangur. Það er okkur öllum í hag að vernda loftslagið í þágu núlifandi og komandi kynslóða. 
Öryggi og þróun eru tvær stoðir starfsemi Sameinuðu þjóðanna og sú þriðja er mannréttindi. Ég mun vinna með aðildarríkjunum og borgaralegu samfélagi að því að hrinda hugmyndinni um Skylduna til að vernda í framkvæmd til að tryggja að gripið verði til aðgerða tímanlega þegar hætta er á þjóðarmorði, þjóðernishreinsunum eða glæpum gegn mannkyninu. 
Lokins verður okkar að takast að umbreyta Sameinuðu þjóðunum sjálfum. Við verðum að aðlagast til að mæta nýjum kröfum og tryggja að við uppfyllum fyllstu kröfur um siðgæði, heiðarleika og reikningsskil í því skyni að sýna að við séum fyllilega ábyrg gagnvart öllum aðildarríkjum og þjóðum heimsins.   
Framtíðin mun dæma okkar af verkum okkar í dag – af árangri okkar. Við skulum ítreka heit okkar um að ná þessum markmiðum í dag, á degi Sameinuðu þjóðanna. 
-höfundur er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.