Helfarar Róma-fólks minnst

0
545

Roma

2. ágúst 2012. Öllum ríkjum ber að skuldbinda sig til að berjast gegn “hatri, ofbeldi og mismunun gegn Roma-fólki og finna haldbærar lausnir til að brjóta niður viðvarandi útilokun þess”, segja tveir sérfræðingar á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þetta á sérstaklega við ríki þar sem Róma-fólk býr.

Sérfræðingarnir sem starfa á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna láta þessi orð falla í yfirlýsingu í tilefni af Alþjóðlegum degi til að minnast Helfarar Róma-fólks á árum Síðari heimsstyrjaldarinnar.

Annar sérfræðingurinn, Rita Izsák er sjálf Ungverji af Roma-kyni og sinni málefnum minnihlutahópa. Hún segir að ekki sé nóg að gert til að stemma stigu við “vaxandi og skammarlegri andúð og mismunun gegn Róma í Evrópu.”

“Þjóðarmorð í Evrópu byrjaði með því að aðrir voru gerði ómannlegir og þeim kennt um allt sem aflaga fór í þjóðfélaginu; hæðst að sérkennum þeirra; þeir útilokaðir og múraðir inni í gettóum. Margt Rómafólk upplifir slíka hluti daglega í Evrópu nærri 70 árum eftir Helförina,” segir Izsák.   

Mutuma Ruteere, starfsbróðir hennar er sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um hvers kyns kynþáttahatur, mismunun á grundvelli kynþátta, útlendingahatur og skylt umburðarleysi. Hann hvetur til vitundarvakningar og aðgerða,
 
“Það skiptir sköpum að kenna sögu Róma í skólum, þar á meðal Helför þeirra fyrir hendi nasista-stjórnarinnar,” segir Ruteere. “Það þarf að auka vitund almennings um sérkenni og menningu Róma en slíkt er þýðingarmikið í viðleitni til að takast á við fordóma sem eru aflvaki kynþáttahaturs og umburðarleysis gagnvart þeim. “

Minningardagur um helför Róma eða “Pharrajimos” á Rómani-máli er haldinn 2. ágúst ár hvert. Þrjú þúsund manns af kyni Róma og Synti féllu fyrir morðingjahendi nóttina 2. til 3. ágúst 1944 að skipan Heinrich Himmler forsprakka SS sveitanna. Talið er að allt að tólf milljónir Róma-fólks búi í Evrópu en að auki er talsverður fjöldi í Suður-Ameríku og víðar. Þetta fólk lifir oftast á jaðri samfélagsins.

Mynd: Tónlistarmenn af Róma-kyni á tónleikum hjá Evrópusambandinu í Brussel. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.